24.11.2024 9:51

Boða metnað í menntamálum

Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem leggur áherslu á menntamál í kosningabaráttunni.

Umboðsmaður barna átti í opinberum samskiptum við mennta- og barnamálaráðuneytið á liðnu sumri. Umboðsmaður taldi „óafsakanlegt“ að ekkert samræmt námsmat hefði tekið við af samræmdum könnunarprófum í grunnskólum eftir að þau voru síðast haldin árið 2021 og að enn ríkti óvissa um hvenær áætlað væri að ljúka við innleiðingu á nýju samræmdu námsmati.

Ábyrgð á því lægi hjá Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra.

Að mati umboðsmanns barna þjónar samræmt námsmat „mikilvægu hlutverki“. Það eigi að veita nemendum upplýsingar um sína stöðu og varpa ljósi á stöðu skólakerfisins í heild. Þá beri að nýta niðurstöður matsins til að bæta þjónustu við nemendur og gæði grunnskólamenntunar. Sú óvissa sem hafi skapast varðandi samræmt námsmat, á kostnað grunnskólabarna og gæða skólastarfs, sé „með öllu óviðunandi“.

Þarna fer ekkert á milli mála. Umboðsmaður barna sættir sig ekki við það sem ráðuneytið og ráðherra hefur sagt um það sem snýr að svonefndum matsferli sem hefur verið unnið að frá árinu 2020 til að útrýma samræmdu námsmati sem gilti til 2021.

Samræmda námsmatið var þá afnumið án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Vildi fráfarandi ráðherra afnema gamla matið alfarið með lögum nú fyrir áramót. Ráðherrann flutti frumvarp um það 9. október sl. og liggur það óafgreitt fram yfir kosningarnar 30. nóvember og verður tæplega eitt af fyrstu málum nýs þings komi það saman fyrir áramót. Án lagabreytingar kemur samræmda matið að nýju til sögunnar 1. janúar 2025.

Í óafgreiddu frumvarpi ráðherrans er meðal annars gert ráð fyrir að í stað orðsins könnunarpróf komi orðið matstæki. Í greinargerð segir að matsferillinn sé „safn matstækja sem er ætlað að draga upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda jafnt og þétt yfir skólagönguna og bera kennsl á börn sem kunna að þurfa stuðning vegna framvindu í námi og þroska“.

Grunnskólinn og framtíð innra starfs í honum er á krossgötum nú þegar gengið er til kosninga., Áslaug 

Screenshot-2024-11-24-at-09.48.10

Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Pétur Zimsen kynna menntastefnu Sjálfstæðisflokksins (mynd Facebook).

Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem leggur áherslu á menntamál í kosningabaráttunni. Hann hefur kynnt stefnu sína í málaflokknum undir fyrirsögninni: Meiri árangur með stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu. 

Þrír efstu frambjóðendur á lista flokksins í Reykjavík suður, þingmennirnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Hildur Sverrisdóttir auk aðstoðarskólastjórans Jóns Péturs Zimsens, hafa lagt sig sérstaklega fram um að kynna þessa stefnu.

Hér verða efnisatriðin 21 í stefnunni ekki rakin en í upphafi segir að kostirnir í skólamálum séu tveir: (1) Að láta reka á reiðanum; (2) Að skapa samfélag þar sem hvert barn blómstri í skóla. Síðari kosturinn er að sjálfsögðu markmið stefnunnar sem boðuð er. Þjóðir sem nái árangri í menntamálum búi við bestu lífskjörin - þar viljum við Íslendingar vera og þar getum við verið, segir þar.

Því miður hefur verið látið reka á reiðanum í menntamálum frá 2018. Það er löngu tímabært að metnaður taki við af reiðileysi í ráðuneyti menntamála.