Bloggari brýtur þagnarmúr
Þrautseigja Páls Vilhjálmssonar sýnir hver ávinningurinn er af vel unnu bloggi og hve miklu skiptir að tapa ekki áttum í moldviðri þeirra sem hafa aðeins vondan málstað.
Oftar en einu sinni hefur verið gerð tilraun til að bola Páli Vilhjálmssyni sögukennara við Fjölbrautarskólann í Garðabæ úr stöðu sinni þar vegna ummæla sem hann hefur látið falla á bloggi sínu Tilfallandiathugasemdir. Páll hefur staðið þær árásir af sér og stjórnendur skólans hafa ekki látið moldviðrið villa sér sýn heldur skoðað efni málsins og tekið ákvarðanir í samræmi við það.
Páll starfaði sem blaðamaður. Hann kann til verka við að kanna og greina mál og draga ályktanir af þeim upplýsingum sem hann aflar. Þegar Páll ályktar um stríðið í Úkraínu og telur Pútin sigurstranglegan er hann vonandi á röngu róli.
Í skrifum sínum um svonefnt Samherjamál og aðförina að Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja, hefur Páll Vilhjálmsson aldrei hvikað frá því að þar sé um að ræða samsæri með þátttöku fjölmiðlamanna á fréttastofu ríkisútvarpsins sem nú hafi flutt sig á Heimildina og í önnur störf en bíði niðurstöðu sakamálarannsóknar hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra.
Páll Vilhjálmsson (mbl.is).
Hér hefur oftar en einu sinni verið drepið á þetta sakamál og lýst undrun yfir hve langan tíma tekur að upplýsa það. Af nýlegum skrifum Páls má ráða að til tíðinda kunni að draga í málinu innan skamms.
Páll Vilhjálmsson skýrði frá því vorið 2023 að Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, hefði stundað Airbnb-atvinnurekstur á ólöglegan hátt og ekkert gefið upp til skatts. Sagði hann brot hennar meiri háttar en hún hefði hlotið sérmeðferð hjá Skattinum, aðeins sekt en komist undan opinberri málshöfðun, sem margir aðrir í sambærilegri stöðu hefðu mátt þola.
Sama hefur gilt um frásagnir Páls Vilhjálmssonar af þessu máli og af því sem hann kallar „byrlunar- og símastuldsmálið“ og snýr að Páli Steingrímssyni að áhugamenn um gang málanna hafa orðið að lesa um þau á bloggsíðunni Tilfallandi athugasemdir.
Allt í einu kom þó mál formanns Blaðamannafélags Íslands upp á yfirborðið miðvikudaginn 10. janúar þegar Sigríður Dögg og Aðalsteinn Kjartansson, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, flæmdu Hjálmar Jónsson, framkvæmdastjóra blaðamannafélagsins, út af skrifstofu félagsins eftir 30 ára forystustörf hans í félaginu. Hjálmari var nóg boðið vegna leynimakks vegna fjármála formanns félagsins. Sigríður Dögg þoldi það ekki, fór í launalaust leyfi á fréttastofu ríkisútvarpsins og settist sjálf í stól framkvæmdastjórans, sendi frá sér fréttatilkynningu um skipulagsbreytingar hjá félaginu og neitaði að svara spurningum.
Þrautseigja Páls Vilhjálmssonar sýnir hver ávinningurinn er af vel unnu bloggi og hve miklu skiptir að tapa ekki áttum í moldviðri þeirra sem hafa aðeins vondan málstað.
Fréttastofa ríkisútvarpsins er virkur þátttakandi í pukrinu í kringum formann blaðamannafélagsins og hún hallar sér að Heimildinni sem er griðastaður samstarfsmanna í „byrlunar- og símastuldsmálinu“. Fréttastofa Sýnar og Vísir halla sér á lækkandi flugi sínu að þessum þöggunarmiðlum þar sem alið er á öfund og óvild í garð Morgunblaðsins í anda minningarbókar Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem kom út haustið 2023.