Blóðbað með samþykki Pútíns
Þeir sem fjalla um málsmeðferðina í öryggisráðinu án þess að minnast einu orði á hlut Rússa og skjólið sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, veitir illmenninu al-Assad segja ekki alla söguna.
Agndofa fylgjast menn um heim allan með blóðbaðinu í Sýrlandi þar sem hersveitir stjórnar landsins hafa dögum saman í skjóli Rússa varpað sprengjum á íbúa í Austur-Ghouta í nágrenni höfuðborgarinnar Damaskus.
Kjartan Hreinn Njálsson ritar leiðara um þessar hörmungar í Fréttablaðið í dag (27. febrúar) og segir meðal annars:
„Óhætt er að segja að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi algjörlega, og ítrekað, brugðist sýrlensku þjóðinni.
Stríðandi fylkingar í Sýrlandi bera ábyrgð á mannfallinu, en ábyrgð ríkjanna fimm sem eiga fastasæti og hafa neitunarvald í Öryggisráðinu er ekki minni. Þessar þjóðir hafa leyft átökunum að halda áfram. Slíkt er vanhæfi þessara svokölluðu stórvelda að þeim hefur ítrekað mistekist að tryggja grundvallarmannréttindi hóps sem þurft hefur að þola einhverjar mestu hörmungar sem sést hafa.“
Þarna eru alhæfingar sem gera þeim rangt til innan öryggisráðs SÞ sem hafa ítrekað beitt sér fyrir að ályktað sé á vettvangi þess gegn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og fylgismönnum hans. Það er ekki við öryggisráðið að sakast að ekki hafi tekist að álykta um málið, þar er fulltrúi eins ríkis sem annaðhvort beitir neitunarvaldi sínu, beitir sér fyrir að orðalag á ályktunum sé útþynnt eða afgreiðsla málsins dregin á langinn, það er fulltrúi Rússa.
Reuters-fréttastofan sendi frá sér þessa mynd og sýnir hún föður huga að barni eftir efnavopnaárás í Austur-Ghouta.
Þeir sem fjalla um málsmeðferðina í öryggisráðinu án þess að minnast einu orði á hlut Rússa og skjólið sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, veitir illmenninu al-Assad segja ekki alla söguna og hlífa þeim sem alls ekki má gleyma í allri þessari sorgarsögu.
Laugardaginn 24. febrúar samþykkti öryggisráðið að gert yrði 30 daga allsherjarvopnahlé í Sýrlandi án þess að nefna hvenær það skyldi hefjast. Sýrlandsstjórn hélt áfram loftárásum fram undir kvöld mánudags 26. febrúar. Þá kippti sá sem þessu ræður í raun, Vladimír Pútín, í spotta og gaf fyrirmæli um fimm klukkustunda vopnahlé sem hófst að morgni þriðjudags 27. febrúar. Læknar telja þetta vissulega betra en ekkert hlé þótt það skipti engum sköpum fyrir tæplega 400.000 manns sem búa á árásarsvæðinu.
Blóðbaðið í Aleppo fyrir nokkrum mánuðum og þessar árásir á almenna borgara í Austur-Ghouta eru allar með „leyfi“ Rússa. Þá halda Rússar úti málaliðum í Sýrlandi. Þeir hlutu fyrir skömmu illa útreið þegar þeir réðust á sérsveitir Bandaríkjahers og bandamenn þeirra.
Stórveldapólitíkin sem Pútín stundar í Mið-Austurlöndum er til heimabrúks. Hann vill sýna að hann sé maður með mönnum á alþjóðavettvangi. Hann sendi meira að segja eina flugmóðurskip sitt frá Kóla-skaganum að strönd Sýrlands í von um að sanna mátt þess. Pútín vill einnig minna eigin landsmenn á að það geti verið dýrkeypt að ætla að hrófla við einræðisherrum á borð við al-Assad og hann sjálfan.