14.5.2023 10:06

Blekkt með tölum og orðum

Þessi ábyrgðarlausa afstaða og dreifing á illa ígrunduðum niðurstöðum er ekki bundin við skoðanakannanir.

Gunnlaugur Auðunn Júlíusson, fyrrv. sveitarstjóri, fór nýlega í saumana á niðurstöðum könnunar Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sem áttu að sýna að nærri helmingur fólks ætti erfitt með að ná endum saman og fjölgaði nokkuð í hópnum milli ára.

Hann vitnaði í lýsingu Vörðu í 84 bls. skýrslu á því hvað stæði að baki niðurstöðunum. Þar segir: „Í þýðinu voru því samtals 167.889 einstaklingar. Könnuninni svöruðu 14.198 félagar og svarhlutfallið 8,5%.“

Gunnlaugur Auðunn bendir á að þetta lága svarhlutfall, 8,5%, leiði til þess að niðurstöður svaranna sem bárust segi „ekkert um stöðu heildarinnar“. Það sé „áhyggjuefni hvað margir umgangast grundvallaratriði skoðanakannanna af mikili léttúð, svo ekki sé dýpra tekið í árinni,“ sagði hann réttilega.

Talan 8,5% sýndi að niðurstaðan væri ekki marktæk fyrir heildina, ekki væri unnt að segja neitt um „viðhorf eða stöðu þeirra 91.5% heildarinnar sem ekki svara“.

Þessi útlistun Gunnlaugs Auðuns á Facebook sýnir ekki aðeins hve ófræðilega hefur verið staðið að þessari könnun heldur einnig hve fjölmiðlamenn eru glámskyggnir þegar niðurstöður kannana eru lagðar fyrir þá. Þeir taka að sér að miðla tölum og ályktunum án þess að kanna hvað að baki býr og berast með straumi blekkinganna án þess að tryggja sér fótfestu.

Þessi ábyrgðarlausa afstaða og dreifing á illa ígrunduðum niðurstöðum er ekki bundin við skoðanakannanir.

Downloaddis

Í skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands sem birtist í vikunni var bent á að ekki stæði steinn yfir steini í tilefnislausri vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra 30. mars 2023. Fréttastofa ríkisútvarpsins gekk í lið með stjórnarandstöðunni í málflutningnum gegn Jóni á sínum tíma. Fréttir af skýrslu lagastofnunar hafa einnig verið sagðar frá sjónarhóli stjórnarandstöðunnar.

Í hádegisfréttum laugardaginn fór Valur Grettisson, fyrrverandi ritstjóri blaðsins Grapevine, rangt með um hvaða lög ágreiningurinn snerist (var leiðrétt áður en „fréttin“ fór á ruv.is) vísaði hann í stjórnsýslulög en ekki þingskapalög alþingis.

Lögð var áhersla á að Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu sem fór mikinn um réttmæti vantraustsins teldi álitsgerð lagastofnunar „smjörklípu“, það er tilraun til að draga athygli frá kjarna málsins.

Ef til vill veit hvorki Helga Vala né fréttamaðurinn hvað stendur að baki orðinu „smjörklípa“. Þingmaðurinn sagði að vantraustið hefði verið flutt vegna brots ráðherrans á „stjórnarskrárvenju“, það er ígildi ákvæðis stjórnarskrár.

Fréttamanninum datt auðvitað ekki í hug að biðja þingmanninn að rökstyðja hvernig slík venja hefði orðið til vegna þeirrar frekju Pírata að krefjast sérmeðferðar innan stjórnsýslunnar á umsóknum til þingsins um ríkisborgararétt.

Eitt er að blekkja með skýrslum og pólitískum stóryrðum annað að halda úti ríkishlutafélagi fyrir sjö milljarða sem dreifir vitleysunni gagnrýnislaust. Það er skrýtið að þar skuli ekki til fé til að tryggja viðunandi ritstjórn.