3.7.2024 10:26

Blekkingarstjórn borgar

Nú blasir hins vegar við að þarna brá sjónvarpið með spuna sínum upp Pótemkin-tjöldum. Logið var að áhorfendum í þágu borgarstjórans að allt væri klappað og klárt.

Eitt helsta einkenni stjórnarhátta meirihlutans undir forystu Dags B. Eggertssonar og nú Einars Þorsteinssonar er að segja eitthvað sem stenst ekki.

Í því sambandi nægir að nefna leynimakkið um bensínstöðvarlóðirnar eða nú síðast tugmilljóna aukakostnað vegna sjálfra borgarstjóraskiptanna. Þegar varpað er fram því augljósa að kostnaðinn megi rekja til launagreiðslna rýkur Dagur B. upp og sakar Hildi Björnsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna, og Morgunblaðið um dónaskap. Hann taki ekki önnur laun en sem formaður borgarráðs. Það er hins vegar þagað um hvers vegna samþykkt er aukafjárveiting úr fjárvana borgarsjóði.

Þegar við blasir að markvisst er stuðlað að lóðarskorti í borginni og þar með ýtt undir hátt húsnæðisverð er neitað að horfast í augu við það og leitað allra annarra skýringa. Borgin skal vera stikkfrí.

Í meira en tvo áratugi hefur verið þrefað um Sundabraut án þess að nokkur haldbær skýring liggi fyrir um skort á nauðsynlegum ákvörðunum borgaryfirvalda. Sé athygli beint að þeim skorti er tekið að ræða eitthvað annað.

Kosningaloforð um umbætur í leikskólamálum eru gefin til að svíkja þau eins og loforðin um að setja Miklubrautina í stokk eða flytja Reykjavíkurflugvöll í Hvassahraun. Til að stuðla að þeim flutningi er logið að fólki að unnið yrði óbætanlegt umhverfistjón í Öskjuhlíð með því að grisja skóg í hlíðinni í þágu flugöryggis, skóg sem enginn heimsækir af því að hann er svo þéttur.

Að binda enda á gjaldfrelsi 67 ára og eldri í sundstöðum í Reykjavík og innheimta 4.000 kr. árgjald stangast á við allt sem sagt er um nauðsyn þess að eldri borgarar stundi líkamsrækt sér til heilsueflingar. Allt tal borgarmeirihlutans um vellíðan eldri borgara er hluti af blekkingariðjunni. Rökin um að meirihlutinn verði að leggja gjaldið á til að innheimta aðgangseyri af 67 ára og eldri útlendingum eru lygi. Til lyginnar er gripið til að beina umræðum frá fjárhagsskorti borgarinnar.

Fyrir nokkrum dögum fór Valur Grettisson, fréttamaður sjónvarps, með Einari Þorsteinssyni, borgarstjóra og fyrrverandi sjónvarpsfréttamanni, í eins konar fagnaðargöngu um óbyggt svæði í Grafarvoginum. Gleðin skein af öllum sem birtust í þessari frétt vegna þess að nýi borgarstjórinn hafði fundið nýjan reit sem mætti þétta með allt að 500 íbúðum í lágreistum húsum.

Screenshot-2024-07-03-at-10.25.33

Nú blasir hins vegar við að þarna brá sjónvarpið með spuna sínum upp Pótemkin-tjöldum. Logið var að áhorfendum í þágu borgarstjórans að allt væri klappað og klárt.

Pótemkin marskálkur vildi ganga í augun á Katrínu II. keisaraynju í Rússlandi með blekkingum sínum. Hverja vildu sjónvarpið og borgarstjóra blekkja? Lánardrottna borgarinnar? Þeir sem eru komnir fjárhagslega að fótum fram grípa til allra ráða til að fegra eigin hlut.

„Fólk líkir þessari furðulegu kynningu borgarstjórans í fréttum við að korti af hverfinu hafi verið stillt upp, pílum kastað og svo tússað um þá staði sem pílurnar lentu á,“ segir Árni Guðmundsson, varaformaður íbúasamtaka Grafarvogs og fulltrúi í íbúðaráði Grafarvogs, í Morgunblaðinu í dag (3. júlí) um framgöngu sjónvarps og borgarstjóra vegna þéttingar Grafarvogsbyggðarinnar. Þar hefst nú nýr kafli í illa saminni blekkingarsögu borgarstjórnarmeirihlutans.