16.1.2024 10:53

Blekkingar við borgarstjóraskipti

Sjálfshól fráfarandi borgarstjóra í drottningarviðtölum við brotthvarf hans úr embætti dugar ekki til að breiða yfir hve margt er á allt annan veg en hann hefur lofað í kosningum.

Í dag verður skipt um borgarstjóra í Reykjavík þegar Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, hefur stólaskipti við Dag B. Eggertsson. Einar leiddi Framsóknarflokkinn til sigurs í borgarstjórnarkosningum vorið 2022 og boðaði breytingar á stjórn borgarinnar þegar hann ákvað að styðja Dag B. áfram sem borgarstjóra. Þessi stólaskipti eru eina breytingin sem orðið hefur. Til þeirra kemur af því að Samfylking Dags B. tapaði fylgi í kosningunum 2022.

Hér skal nefnt eitt hrópandi dæmi um lélega stjórnarhætti í borginni í tíð Dags B. Í viðtali við Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, flokksbróður nýja borgarstjórans, í Morgunblaðinu laugardaginn 13. janúar var rætt um fyrirhugaða umbyltingu á opinberri þátttöku í byggingu hjúkrunarheimila.

Ráðherrann boðar að sérhæfð fyrirtæki verði kölluð að borðinu til að tryggja fjölgun rýma og rekstur húsnæðis hjúkrunarheimila. Sveitarfélögin verði leyst undan skyldum sínum um sama efni, framkvæmdasjóður aldraðra verði aflagður og tekjustofnar sveitarfélaga endurskoðaðir en þau bera nú 15% af kostnaði við uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila í landinu.

Willum Þór sagði ráðuneyti sitt nú þegar hafa ráðist í markaðskönnun sem gæfi til kynna að hægt yrði að stórfjölga hjúkrunarrýmum fljótt. „Við megum engan tíma missa,“ sagði ráðherrann og ítrekaði að langir biðlistar væru eftir hjúkrunarrými og að það hefði ekki síst áhrif á fráflæðisvanda Landspítalans.

DagurogsvandisundSvandis Svavarsdóttir og Dagur B. Eggertsson rita undir samning um hjúkrunarheimili við Mosaveg 25. maí 2021. Framkvæmdir áttu að hefjast síðar sama ár. Þær eru enn að velkjast í kerfinu.

Í viðtalinu spyr Stefán Einar Stefánsson blaðamaður ráðherrann meðal annars um gríðarlegar tafir á uppbyggingu 144 rýma hjúkrunarheimilis við Mosaveg í Grafarvogi í Reykjavík.

Svandís Svavarsdóttir, þáv. heilbrigðisráðherra, og Dagur B. Eggertsson rituðu 25. maí 2021 undir samkomulag um byggingu hjúkrunarheimilisins og átti það að komast í notkun á árinu 2026. Framkvæmdir eru ekki enn hafnar. Við undirritunina var upphaf framkvæmda boðað síðar árið 2021.

Heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn fréttastofu ríkisins um málið undir lok september og sagði að deiliskipulag vegna lóðar undir heimilið hefði ekki verið auglýst hjá borginni fyrr en vorið 2023. Vinna við útboð á hönnun og byggingu hefði ekki getað farið af stað, þar sem lóðinni hefði ekki enn verið úthlutað. Úthlutun þyrfti að vera formleg áður en hægt væri að taka næstu skref.

Þegar Morgunblaðið spurði Dag B. Eggertsson um þessa lýsingu ráðherrans á tveggja ára töf á byggingu hjúkrunarheimilisins svaraði borgarstjóri 25. september 2023: „Það tók einhvern tíma að útfæra þetta í skipulagi en deiliskipulagið lá fyrir fyrr á þessu ári.“ Nú mætti hefja framkvæmdir!

Þetta dæmi er lýsandi um stjórnarhætti í borginni undir forystu Dags B. Eggertssonar. Þarna eru skipulagstafir þó ekki „nema“ tvö ár. Vegna Sundabrautar eru árin orðin meira en 20 og sömu sögu er að segja um mörg önnur mannvirki.

Sjálfshól fráfarandi borgarstjóra í drottningarviðtölum við brotthvarf hans úr embætti dugar ekki til að breiða yfir hve margt er á allt annan veg en hann hefur lofað í kosningum.

Blekkingartal við borgarstjóraskipti haggar ekki við staðreyndum.