13.1.2025 10:53

Blásið til landsfundar

Í Sjálfstæðisflokknum verður ekki hafður sami háttur á og í Samfylkingunni þar sem tómarúmið á toppnum var orðið svo mikið eftir eyðimörkugöngu í um það bil áratug að Kristrún Frostadóttir var án kosninga krýnd formaður flokksins.

Allt bendir til þess að landsfundur Sjálfstæðisflokksins fari fram í lok febrúar eins og að hefur verið stefnt. Það er ekki vegna þess furðulega upphlaups eða uppnáms sem varð milli jóla- og nýárs þegar hönnuð var samsæriskenning um að til stæði að fresta landsfundinum.

Að baki bjó vitneskja um að á fundi forystumanna málefnanefnda flokksins hefði verið hreyft spurningu um hvað kallaði á landsfund á þessum tíma úr því að ekki yrði kosið til þings vorið 2025 eins og talið var hugsanlegt þegar tími fyrir fundinn á árinu 2025 var ákveðinn. Stóryrði sumra sem tóku til máls um þetta mál voru stórfurðuleg.

Uppnámið vegna fundartímans sem birtist um jólin átti ekki rætur að rekja til þess mikla málefnastarfs sem jafnan tengist landsfundi Sjálfstæðisflokksins, annað bjó að baki. Líklega voru þeir sem hæst töluðu með hugann við hugsanlegt formannskjör þegar beðið var yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar um hvort hann ætlaði að óska eftir endurkjöri eða ekki.

Bjarni skýrði frá því fyrir réttri viku, mánudaginn 6. janúar, að hann segði tafarlaust af sér þingmennsku og myndi ekki óska eftir endurkjöri til formanns á næsta landsfundi.

Við þetta varð ljóst að formannskjör myndi setja svip sinn á landsfundinn og aðdraganda hans. Allt annað fellur í skuggann. Við þær aðstæður og miðað við að ekki verði gengið til kosninga fyrr en í sveitarstjórnarkosningum vorið 2026 gefst tími til að efna til landsfundar að ári og bása til sóknar undir merkjum stefnu flokksins í ljósi áherslna nýs formanns og framvindu stjórnmálanna almennt.

DSC0077-1-scaledFrá landsfundi Sjálfstæðisflokksins (mynd: xd.is).

Í Sjálfstæðisflokknum verður ekki hafður sami háttur á og í Samfylkingunni þar sem tómarúmið á toppnum var orðið svo mikið eftir eyðimörkugöngu í um það bil áratug að Kristrún Frostadóttir var án kosninga krýnd formaður flokksins í Iðnó, henni næstum að óvörum eins og lesa má í Morgunblaðinu nú um helgina.

Næsta undrunarefni hennar er að hún eins og datt inn í embætti forsætisráðherra með planið sitt sem breyttist í spurningu um hagsýni í ríkisrekstri í samráðsgátt stjórnvalda.

Um 3.000 manns hafa nú gert tillögur í samráðsgáttinni og þarf engan að undra að innan stjórnarráðsins og ýmissa opinberra stofnana, eins og t.d. ríkisútvarpsins, tali menn um að Kristrún hafi gefið skotleyfi á opinbera starfsmenn. Tillögurnar snúast almennt um fækkun þeirra.

Til að firra sig ábyrgð á úrvinnslu tillagnanna og gerð skýrslu um þær er því nú flaggað að vitvél eða gervigreind verði falið það verkefni. Vilja forystumenn stjórnarflokkanna hafa frjálsar hendur í þessu efni.

Fyrir utan þetta vekur athygli að breytingastjórn Kristrúnar í Samfylkingunni felur helst í sér að ýta þeim til hliðar sem hún telur að geti skyggt á sig. Hún fór ekki í launkofa með kuldalegt viðmót sitt í garð Dags B. Eggertssonar fyrir kosningar og að þeim loknum hefur hún haldið honum frá áhrifaembættum á alþingi.

Líkur eru á líflegri kosningabaráttu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Fundurinn skyggir á ríkisstjórnina og verður mál stjórnmálanna.