1.6.2017 10:22

Blandaður hernaður af hálfu Rússa á Útvarpi Sögu

Næst þegar erlendir menn spyrja hvort blandaður hernaður sé stundaður gagnvart Íslendingum nefni ég framgöngu Hauks Haukssonar á Útvarpi Sögu sem dæmi um að svo sé.

Mánudaginn 29. maí sat ég fund með nokkrum áhrifamönnum í mið-hægri stjórnmálaflokkum á Norðurlöndunum og ræddi við þá um öryggismál á Norður-Atlantshafi. Þau hafa breyst mikið á þremur árum frá innlimun Rússa á Krímskaga.

Einn fundarmanna vakti máls á blönduðum hernaði hybrid warfare og netheimastríði cyber warfare og spurði um stöðu Íslendinga gagnvart hættum af þessum nútímahernaði. Um netheimastríðið sagði ég að Íslendingar hefðu komið sér upp vörnum á þeim vettvangi og ekki hefðu borist fréttir af skipulagðri árás á tölvuvarnir landsins þótt tölvuþrjótar reyndu fyrir sér gagnvart Íslendingum eins og öllum öðrum.

Um netglæpi má meðal annars fræðast af viðtali mínu við G. Jökul Gíslason lögreglumann.ÍNN 24. maí

Um blandaða stríðið sagði ég að Íslendingar hefðu ekki orðið fyrir sambærilegu áreiti af hálfu Rússa og aðrar Norðurlandaþjóðir. Þar hafði ég í huga að sendiherrar Rússa bæði í Danmörku og Noregi hafa hótað þjóðum þessara landa kjarnorkuárás tengist þær eldflaugavarnarkerfi NATO og Bandaríkjanna. Rússar reyna að fæla Svía og Finna frá samstarfi við Bandaríkjamenn og NATO í hermálum með beinum og óbeinum hætti. Áróðursstríð er og hefur verið háð gegn þessum þjóðum af Rússum og talsmönnum þeirra.

Síðdegis þriðjudaginn 30. maí, daginn eftir að ég ræddi þessi mál við norræna viðmælendur mína, kveikti ég á Útvarpi Sögu í bílnum og hlustaði á samtal Hauks Haukssonar í Moskvu við Arnþrúði Karlsdóttur og Pétur Gunnlaugsson, stjórnendur stöðvarinnar. Haukur virðist fastur fulltrúi stöðvarinnar í Moskvu og símtalið við hann sannaði mér að í íslenskum fjölmiðli er að finna rödd rússnesku áróðursmiðlanna sem boðar stefnu rússneskra stjórnvalda gegn NATO og aðildarríkjum bandalagsins.

Rússar hafa þróað „fréttafölsunariðnað“ og til að bregðast við honum hefur Evrópusambandið til dæmis komið á fót sérstakri greiningardeild sem birtir vikulega niðurstöðu rannsókna sinna á framleiðslu Rússa á þessu sviði.

Í vikulegri skýrslu greiningardeildarinnar sem birtist í dag, 1. júní, segir að í upplýsingafölsun sé einn þáttur sem aðeins fáir þori að nota: miðlun „staðreynda“ sem séu algjörlega og augljóslega á skjön við sannleikann. Þetta sé þó aðferð hjá þeim sem halda fram málstað Kremlverja, það er Pútíns og félaga.

Þá segir fréttagreiningardeild ESB að nýlega hafi birst fyrirsögn hjá miðlinum Russia Today þar sem sagði: „Rússar hóta að beita kjarnorkuvopnum? Bandarísk nefnd birtir furðufrásögn í von um aukinn herviðbúnað.“ ESB-menn segja að með þessu hafi rússneski miðillinn viljað gefa til kynna að Kremlverjum dytti aldrei í hug að hóta á þennan hátt.

Þeir segja að staðreyndir sýni annað og vitna í rússneska sendiherrann í Danmörku sem sagði: „Ég held að Danir skilji ekki til fulls afleiðingar þess ef Danmörk verður hluti eldflaugavarnarkerfisins undir forystu Bandaríkjamanna. Gerist það verða dönsk herskip skotmörk rússneskra kjarnaflauga.“ Þá hafi Pútín sjálfur látið í það skína að hann kynni að nota kjarnorkuvopn gegn þeim sem sættu sig ekki við ólöglega innlimun hans á Krímskaga. Í fyrra flutti hann ibúum Rúmeníu og Póllands þau varnaðarorð að þeir yrðu í sigti hjá Rússum ef þeir samþykktu hluta af eldflaugavarnarkerfinu í löndum sínum.

Boðskapur Hauks Haukssonar var í þeim dúr að eðlilegt væri að Rússar ykju herbúnað sinn af því að um þá væri setið. NATO væri sífellt að færa sig nær þeim og ætlaði að innlima Moldavíu, Makedóníu og Montenegro (Svartfjallaland) til þess eins að ögra Rússum. Flutti hann samsæriskenningar í anda Kremlverja eins og um heilagan sannleika væri að ræða.

Rétt er að geta þess að þing Svartfjallalands hefur samþykkt aðild lands síns að NATO og verður landið 29. aðildarríki bandalagsins í þessum mánuði. Í fyrra var kosið til þingsins í Svartfjallandi og þá gerðu serbneskir útsendarar Rússa tilraun til valdaráns í von um að hindra aðild landsins að NATO. Á þeim skamma tíma sem ég hlustaði á Rússa-spjallið á Útvarpi Sögu heyrði ég ekki minnst á þessa staðreynd enda er hún ekki hluti af Kremlarforskriftinni.

Næst þegar erlendir menn spyrja hvort blandaður hernaður sé stundaður gagnvart Íslendingum nefni ég framgöngu Hauks Haukssonar á Útvarpi Sögu sem dæmi um að svo sé.