30.3.2017 11:31

Bjorn.is fær nýtt útlit

Í samvinnu við starfsmenn Hugsmiðjunnar hef ég undanfarið unnið að uppfærslu vefsíðu minnar bjorn.is sem verið hefur í loftinu í 22 ár. Hér birtist nýja útlitið auk þess sem efnistök breytast.

Í dag verður breyting á útliti vefsíðunnar bjorn.is eins og fastgestir hennar sjá. Þá verður einnig breyting á efnistökum. Dálkurinn Pistlar hverfur af vefslánni en allir fyrri pistlar eru þó áfram aðgengilegir eins og sjá má neðst á síðunni. Efni þeirra er einnig aðgengilegt í leitarvél síðunnar.

Þá breytist dálkurinn Dagbókin á þann veg að nú kunna að birtast fleiri færslur en ein á hverjum degi og hver og ein með sinni fyrirsögn. Þetta leiðir til meiri sveigjanleika bæði í lengd færslna og tíðni birtinga.

Ekki er lengur unnt skrá sig á póstlista á síðunni en hnappur fyrir fyrirspurnir eru á sínum stað neðst á síðunni og þar við hliðina stendur Um vefinn. Þar má lesa um sögu vefsíðunnar sem teygir sig aftur til 1994.

Nýr hnappur er á vefslánni, Þættir. Þar má sjá alla sjónvarpsþætti mína á ÍNN frá því að stöðin tók að setja þá inn á Vimeo 10. apríl 2014. Ég mun taka saman lista yfir alla viðmælendur mína síðan og birta í þessum dálki svo að auðvelt verði að finna þá eftir dagsetningum og nöfn þeirra komi í leitarvélinni.

Ég vona að lesendur síðunnar kunni að meta þessar breytingar. Nauðsynlegt var að uppfæra síðuna til að þjónustan sem Hugsmiðjan ehf. veitir nýtist sem best og síðan sé löguð að nýrri tækni, til dæmis er hún nú auðlesanleg í snjallsímum og á spjaldtölvum.

Ég þakka starfsfólki Hugsmiðjunnar samstarfið við uppfærsluna og fyrir að hýsa síðuna frá árinu 2002.

Í netheimum eiga ekki margar einstaklingssíður jafnlanga sögu og bjorn.is