Bjöguð sýn rannsóknastjóra
Þetta er því miður aðeins eitt dæmi af mörgum um sérstæða framgöngu starfsmanna í Háskóla Íslands þegar kemur að málum fyrir botni Miðjarðarhafs.
Dagana 21. til 29. mars 1966 var Ásgeir Ágeirsson forseti Íslands í opinberri heimsókn í Ísrael og var Emil Jónsson, utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, í för með honum. Ásgeir var kjörinn forseti 1952 en hann hafði áður setið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn og Alþýðuflokkinn.
Í frásögn Morgunblaðsins 30. mars 1966 af heimsókn forsetans segir að hann hafi farið á Herzl-fjall, hæð í Jerúsalem sem kennd sé við dr. Theodor Herzl, höfund Zíonistahreyfingarinnar. Forseti hafi lagt blómsveig á gröf Herzl og gróðursett trjáplöntu, Bertusvið frá Líbanon, skammt frá gröfinni.
Af Herzl-fjallinu hafi verið haldið til einnar af nýjum útborgum Jerúsalem sem byggð sé af nýlega aðfluttum gyðingum. Þar hafi forseti Íslands gefið nýrri götu nafnið Íslandsgata. Eftir að nokkrar ræður höfðu verið fluttar klippti forseti Íslands á silkiborða sem strengdur hafði verið yfir götuna. Forsetinn og forseti Ísraels hafi síðan gengið fyrstir manna niður eftir götunni, fylgdu þeim börn með fána og mikill mannfjöldi auk hermanna.
Um 15 árum eftir þessa forsetaheimsókn kom ég við annan mann að landamærum Ísraels frá Líbanon. Við höfðum ekki heimild til að fara inn í Ísrael en fengum okkur kaffi með ísraelskum landamæraverði sem tók okkur Íslendingunum fagnandi vegna ánægjulegra minninga um komu Ásgeirs Ásgeirssonar til Ísraels. Hún hefði verið þjóðinni styrkur og gleðiefni.

Hér er þetta rifjað upp vegna þess að í gær, 19. september, birti Guðný Gústafsdóttir, verkefnisstjóri rannsókna hjá Félagsvísindastofnun HÍ, grein á Vísi undir fyrirsögninni: Þjóðarmorð Palestínu. Þar segir meðal annars að íslensk stjórnvöld hafi frá upphafi stutt síonistaríkið Ísrael.
Til marks um það hafi Bjarni Benediktsson þáverandi forsætisráðherra farið í sérstaka vinarheimsókn til Ísrael 1964 og lagt blómsveig á leiði Theodors Herzl. Að kalla opinbera heimsókn forætisráðherra til Ísraels „sérstaka vinarheimsókn“ sýnir að eitthvað sérstakt býr að baki hjá verkefnisstjóra rannsókna við stofnun Háskóla Íslands.
Tilgangur Guðnýjar er að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson yngri, hann hafi fetað „dyggilega í fótspor afabróður síns“. Hann hafi ásamt flokki sínum setið hjá í atkvæðagreiðslunni um sjálfstæði Palestínu 2011, líkt og þáverandi flokkssystir hans Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þess er ekki getið að Sjálfstæðismenn lýstu stuðningi við tveggja ríkja lausn sem enn er á döfinni.
Verkefnisstjórinn gerir lítið úr Þorgerði Katrínu og segir hana stæra sig á alþjóðavettvangi af stuðningi Íslands við sjálfstæði Palestínu og klifa á „tveggja ríkja lausninni“. Lausnin fellur greinilega ekki í kramið hjá Guðnýju.
Þetta er því miður aðeins eitt dæmi af mörgum um sérstæða framgöngu starfsmanna í Háskóla Íslands þegar kemur að málum fyrir botni Miðjarðarhafs. Leitast er við að stimpla einstaklinga að ósekju sem hlutdeildarmenn í átökum líðandi stundar.
Hér væri ekki vikið að þessari iðju nema vegna þess að í þessu tilviki á verkefnisstjóri rannsókna hlut að máli, stjórnandi sem hefur hönd í bagga við val á rannsóknarefnum og í hvaða átt rannsóknir beinast innan Háskóla Íslands