Bjarni segir ekkert framsal á orkuauðlinum í O3.
Ekkert hefur breyst í O3 síðan Þorsteinn Sæmundsson mælti með og studdi lögfestingu hluta hans vorið 2015. Breytingin er að Þorsteinn hefur skipt um flokk og skoðun.
Alþingi 24. febrúar 2015: Þorsteinn Sæmundsson var þingmaður Framsóknarflokksins, hann var einnig framsögumaður meirihluta atvinnuveganefndar þingsins um innleiðingu hluta þriðja orkupakkans (O3) í lög það ár. Þorsteinn sagði í ræðu á alþingi 24. febrúar 2015: „Markmið tilskipunarinnar [O3] er að bæta og samþætta samkeppnishæfa raforkumarkaði innan bandalagsins. Hún hefur ekki enn verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en talið er rétt að innleiða þennan hluta hennar, þ.e. 22. gr., þar sem mælt er fyrir um kerfisáætlun flutningsfyrirtækis.“
Lilja Rafney Magnúsdóttir fulltrúi VG í atvinnuveganefnd flutti breytingartillögu um að í stað orðanna „raforkunotkunar, markaðsþróunar og raforkuflutnings til annarra landa eftir því sem við á“ kæmu orðin: raforkunotkunar og markaðsþróunar. Þorsteinn Sæmundsson greiddi atkvæði gegn þessari tillögu. Hann vildi hafa orðin „raforkuflutnings til annarra landa“ inni í lagatextanum. (Frosti Sigurjónsson, þáv. þingmaður vildi það líka.)
Bjarni Benediktsson á alþingi. (Mynd af mbl.is.)
Alþingi 2. maí 2019: Sami Þorsteinn Sæmundsson, nú þingmaður Miðflokksins, spyr Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hvort hann kannist við landsfundarályktun flokksins frá 18. mars 2019 þar sem „frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins“ er hafnað.
Bjarni svaraði á þann veg að ekkert mál lægi nú fyrir alþingi sem flytti yfirráð í orkumálum til ESB. Hann sagði:
„Nú er það þannig að við erum ekki bundin raforkustefnu, orkumálastefnu Evrópusambandsins, heldur högum við þeim málum eftir eigin óskum á Íslandi. Við setjum okkar eigin stefnu um orkumál, erum með orkuauðlindir í opinberri eigu og almennt vinnsluna í opinberum fyrirtækjum. Að því leyti til eru raforkumálefni Íslands enn í okkar höndum og verða áfram.“
Þorsteinn Sæmundsson vísaði einnig til ummæla Bjarna í orðaskiptum hans og Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar, á alþingi skömmu eftir landsfund sjálfstæðismanna. Þar skýrði Bjarni ályktun fundarins gegn frekara framsali til ESB í orkumálum. Sama á við um þau ummæli Bjarna og ályktunina, hvoru tveggja stendur og heldur gildi sínu en á ekki við um þriðja orkupakkann. Bjarni sagði fimmtudaginn 2. maí 2019 að Þorsteinn Sæmundsson hefði ekki greint frá því hvað í fyrirliggjandi þingskjölum fæli í sér framsal á yfirráðum yfir íslenskum raforkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Ástæðan væri „að það er ekkert í þeim málum sem liggja fyrir þinginu sem gerir neitt slíkt,“ sagði Bjarni réttilega.
Staðan nú: Ekkert hefur breyst í O3 síðan Þorsteinn Sæmundsson mælti með og studdi lögfestingu hluta hans vorið 2015. Breytingn er að Þorsteinn hefur skipt um flokk og skoðun. hann gekk í lið með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni til að koma Framsóknarflokknum fyrir kattarnef. Meðölin sem þeir nota eru ófyrirleitin.