Bjarni gefur upp boltann
Í ræðu Bjarna Benediktssonar er efniviður í öfluga málefnabaráttu, vilji menn taka slaginn við andstæðinga sína í stað þess að láta þá ráða málefnasnauðu umræðuefni.
Yfirgripsmikil ræða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, við setningu flokksráðsfundar sjálfstæðismanna (sem sagður er sá fjölmennasti í 95 ára sögu flokksins) var í hróplegri andstöðu við spurningarmerkið í auglýsingu sem ungir sjálfstæðismenn birtu í tilefni fundarins vegna þess að skoðanakönnun sýnir fylgi flokksins í 13,9%.
Margir verða eitt spurningamerki þegar þeir sjá auglýsinguna. Í áranna rás hafa ungir sjálfstæðismenn haft annað og meira til málanna að leggja en tölu og spurningamerki. Hjá þeim hefur verið uppspretta hugmynda. Sjaldan hefur verið mikilvægara að minna á grunngildi sjálfstæðisstefnunnar en nú þegar einræðisherrar rotta sig saman í nafni alræðis og reynt er að brjóta sjálfstæði Evrópuríkis á bak aftur með sprengjuárásum á almenna borgara.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins. (mbl.is/Ólafur Árdal).
Innan Sjálfstæðisflokksins virðist himinn og haf milli þess sem áunnist hefur fyrir tilstuðlan flokksins og vitneskju margra sem taka til máls um störf og stefnu flokksins. Haldi þeir sem vilja vera málsvarar flokksins ekki fram stefnu hans og verkum heldur láta smitast af niðurrifi andstæðinga hans þarf ekki að setja spurningarmerki fyrir aftan lága fylgistölu í skoðanakönnunum, svarið liggur í augum uppi.
Í frétt á mbl.is laugardaginn 31. ágúst segir meðal annars:
„Allt of lengi höfum við látið það eftir að leyfa vinstrimönnum að skilgreina okkur. Hver við erum og fyrir hvað við stöndum.“
Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, og uppskar mikið lófatak á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins.
„Sumir segja að við eigum að vera meiri Viðreisn. Aðrir segja að við eigum að vera meiri Miðflokkur. Ég segi að við eigum að vera miklu meiri Sjálfstæðisflokkur.“
Þetta er kjarni málsins og í ræðu Bjarna Benediktssonar er efniviður í öfluga málefnabaráttu, vilji menn taka slaginn við andstæðinga sína í stað þess að láta þá ráða málefnasnauðu umræðuefni. Með nútímalegri fjölmiðlun á skrifstofa flokksins að dreifa ræðunni til áhorfs, hlustunar eða lesturs. Það er einfaldasti hlutur í heimi þótt mörgum virðist hann flókinn í framkvæmd.
Fylgist menn með kosningabaráttunni í Bandaríkjunum um þessar mundir sjá þeir hve mikil áhersla er lögð á að láta ekki gagnrýni ósvarað, helst samstundis, samhliða því sem kynnt eru eigin málefni. Með þessu er byggð upp spenna í leiknum og hann dregur að fleiri þátttakendur. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn að fara að hvatningu formanns síns og taka á eigin málum í anda kappliðs sem að er sótt, verða forystumenn hans og málsvarar að bregðast við á annan hátt en að keppast um að gera sjálfsmark.
Bjarni gaf upp boltann þegar hann ræddi eigin framtíð og minnti á að hann hefði verið flokksformaður í 15 ár (lengst allra fyrir utan Ólaf Thors). Bjarni ætlar að leiða ríkisstjórn sína fram að kosningum sem verða í síðasta lagi að ári en með góðum fyrirvara fyrir landsfund sjálfstæðismanna í febrúar 2025 tekur hann af skarið um hvort hann gefi kost á sér til flokksformennsku. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn er hollt að um það sé spurningarmerki en stefnan er skýr.