1.10.2025 13:08

Bjargvættur frá Íslandi

Í Kastljósinu sagði Birgir Þórarinsson sína hlið á málinu, líklega af meiri hógværð en efni standa til miðað við frásögn ísraelska fjölmiðilsins.

Birgir Þórarinsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, átti virkan þátt í að Elizabeth Tsurkov, sem hafði verið gísl írakskra skæruliða í tæp þrjú ár, var látin laus. Hann sagði frá málinu í eftirminnilegu viðtali í Kastljósi að kvöldi 30. september.

Elizabeth Tsurkov er fræðimaður sem hefur bæði rússneskt og ísraelskt ríkisfang. Hún var doktorsnemi við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum þegar hún fór til Íraks til að vinna að rannsóknum á hreyfingum sjíta-múslíma í Írak. Í mars 2023 var hún tekin í gíslingu þar sem hún sat á kaffihúsi í hverfinu Karrada.

Hún var í haldi sjíta-múslíma, skæruliðasveitar Kata'ib Hezbollah sem starfar í Írak með stuðning Íransstjórnar til 9. september 2025. Krafðist sveitin lausnargjalds að andvirði 24 milljarða íslenskra króna. Var hún sökuð um að stunda njósnir fyrir ísraelsk stjórnvöld sem þau og fjölskylda hennar segja alrangt.

Laugardaginn 28. september birti ísraelska blaðið Times of Israel frásögn af Elizabethu og björgun hennar undir fyrirsögninni: From Iceland to Iran and Iraq: One man’s mission to help free Elizabeth Tsurkov. Þessi eini maður sem tók sér fyrir hendur að leggja þeim lið sem unnu að því að frelsa Elizabethu er Birgir Þórarinsson.

Screenshot-2023-07-05-193105-e1688574713743-640x400Elizabeth Tsurkov.

Í Kastljósinu sagði hann sína hlið á málinu, líklega af meiri hógværð en efni standa til miðað við frásögn ísraelska fjölmiðilsins. Í blaðinu voru lokaorð Birgis svipuð og í sjónvarpsþættinum en þar sagði hann:

„Ég tel að Ísland eigi ónýtt tækifæri í því að vera friðflytjandi á alþjóðavettvangi. Við höfum engan her, við höfum ekki vopnaframleiðslu, við eigum enga óvini, við ógnum engu ríki og við höfum góðan orðstír. Þetta eru verðmæti fyrir íslenska þjóð sem við eigum að nýta okkur og öðrum til góðs.“

Undir þessi orð skal tekið. Þessi verðmæti eru ekki metin til fjár en þeirra ber íslenskum stjórnvöldum að gæta sem gullmola.

Samhliða því sem Birgir Þórarinsson fær alþjóðlega viðurkenningu sem vel metinn bjargvættur þeirra sem sæta harðræði í höndum skæruleiða í eldfimasta hluta heims vex vegur Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, á vettvangi öryggis- og varnarmála í Evrópu. Hún er sérlegur fulltrúi Evrópuráðsins til lausnar eins viðkvæmasta og dapurlegasta hluta alls þess illa sem leitt hefur af innrás Pútins í Úkraínu. Hún tekst á við vandann af ránum Pútins á tugum þúsunda barna frá Úkraínu og nauðungarflutningi þeirra til Rússlands. Fyrir þann verknað hefur Pútin verið lýstur stríðsglæpamaður.

Utan ESB hafa íslenskir stjórnmálamenn svigrúm til að beita sér á annan hátt á alþjóðavettvangi en ef Ísland væri í sambandinu.

Yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra Viðreisnar, í ýmsum málum á alþjóðavettvangi vega að þessu orðspori Íslands eða beinlínis spilla því.