Bjargvættur Flokks fólksins
Heimir Már hefur mikla reynslu af því að sameina flokka frá því að hann starfaði við hlið Margrétar Frímannsdóttur á sínum tíma. Það er vafalaust einn kostur sem Inga Sæland veltir fyrir sér í hremmingum sínum
Heimir Már Pétursson sjónvarpsmaður varð á dögunum framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi þingflokks Flokks fólksins. Heimir Már hefur frá árinu 2012 starfað á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann gegnir stjórnmálastörfum af þessu tagi.
Áður en Alþýðubandalagið gekk að hluta inn í Samfylkinguna árið 1999 var Heimir Már framkvæmdastjóri þess flokks og vann náið með Margréti Frímannsdóttur flokksformanni sem stjórnaði förinni inn í Samfylkinguna.
Heimir Már gaf kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 1999 og var árið 2003 á framboðslista Samfylkingarinnar í alþingiskosningum. Í maí 2005 bauð hann sig meira að segja fram til varaformanns í Samfylkingunni og keppti við þá Lúðvík Bergvinsson og Ágúst Ólaf Ágústsson sem hreppti hnossið.
Heimir Már Pétursson (mynd: Flokkur fólksins).
Nú stendur Heimir Már næst því að komast á þing þegar hann gengur til liðs við Ingu Sæland. Að henni er sótt vegna þess ásetnings hennar að skrá samtök sín ekki sem stjórnmálasamtök í samræmi við kerfið sem gildir um fjárstuðning við stjórnmálaflokka.
Heimir Már hefur mikla reynslu af því að sameina flokka frá því að hann starfaði við hlið Margrétar Frímannsdóttur á sínum tíma. Það er vafalaust einn kostur sem Inga Sæland veltir fyrir sér í hremmingum sínum, hvort hún eigi hreinlega að leggja til við landsfund sinn í skrifstofu Flokks fólksins laugardaginn 22. febrúar að félagið renni inn í Samfylkinguna.
Fyrsta verkefni Heimis Más til að afla sér trausts og trúnaðar í Flokki fólksins er að snúast harkalega til varnar fyrir fjármálavafstur Ingu Sæland og félaga undir merkjum Flokks fólksins.
Hann fékk frjálsan tíma í morgunþætti hjá útvarpi ríkisins föstudaginn 14. nóvember til að ráðast á þá sem hafa leyft sér að benda á aðferðina sem Inga hefur beitt til að skapa flokki sínum fjárhagslega stöðu „utan þjónustusvæðis“ ef svo má orða það við móttöku 240 milljóna króna úr ríkissjóði.
Laugardaginn 15. febrúar skrifaði Heimir Már síðan grein á Vísi undir fyrirsögninni: Þegar heiftin nær tökum á hrútakofanum. Hún ber vott um hvernig efnistök hann telur að falli best í geð nýrra skjólstæðinga sinna en upphafsorð greinarinnar eru:
„Undanfarnar vikur höfum við orðið vör við hjákátlegt jarm og á köflum hljóð sem minna á væl og öskur út úr hrútakofa biturra manna sem kunna tungu sinni ekki forráð vegna þeirra miklu vonbrigða sem þeir urðu fyrir að afloknum síðustu alþingiskosningum.“
Má skilja á greininni að með þessum orðum bendi hann lesendum sínum á líðan sjálfstæðismanna og framsóknarmanna utan ríkisstjórnar. Þá víkur hann einnig orðum að Morgunblaðinu og segir: „Eiturpennar á Mogganum án alls siðgæðis sem einkennir góða blaðamennsku fóru nú á stjá.“
Að mati Heimis Más er þetta undirrót þess að Flokkur fólksins hefur nú verið kærður til héraðssaksóknara fyrir að misfara með opinbert fé.
Það kemur í ljós 22. febrúar hvort Heimi Má verði falið að undirbúa inngöngu í Samfylkinguna. Grein sinni í Vísi lýkur hann á þessum óræða boðskap:
„Hrútarnir þurfa að fara að huga að fengitímanum vilji þeim ganga betur í næstu kosningum.“
Í orðunum felst dulin ábending til Ingu og félaga um að þau eigi annan kost en að berjast áfram vonlausri baráttu undir merkjum Flokks fólksins.