Bitlaus sjávarútvegur
Koma ætti „fiskvinnslunni úr landi“. Þá þyrfti ekki að „hafa áhyggjur af henni í viðræðum við Evrópusambandið.
Arnar Hjaltalín, formaður verkalýðsfélagsins Drífanda í Vestmannaeyjum, ræddi við Morgunblaðið 1. september í tilefni af uppsögn 50 starfmanna hjá fiskvinnslufyrirtækinu Leo Seafood. Formaðurinn sagði að honum þætti augljóst hvað væri að gerast. Hann minnti á að á sínum tíma hefðu aðildarviðræður við ESB runnið út í sandinn vegna sjávarútvegsins; fiskvinnslu, útgerðar og fiskimiða. Taldi hann stjórnvöld væru nú „vísvitandi að draga tennurnar úr sjávarútveginum“. Koma ætti „fiskvinnslunni úr landi“. Þá þyrfti ekki að „hafa áhyggjur af henni í viðræðum við Evrópusambandið.
Arnar tók fram að hann væri „ekki mikið fyrir samsæriskenningar“ þetta væri þó „hluti af planinu“. Hann bætti við: „Þau ætla sér að draga tennurnar úr fyrirtækjunum sem voru leiðandi í andstöðunni við Evrópusambandið.“
Það er óþarfi að afasaka þessa skoðun sem þarna er lýst með því að nefna samsæriskenningar til sögunnar. Strax frá því að tveir ráðherrar Viðreisnar kynntu aðferðafræðina að baki hækkunar veiðigjaldanna var leiðinni í málinu harðlega mótmælt af forráðamönnum sjávarútvegsfyrirtækja um land allt og kjörnum stjórnendum sjávarútvegsbyggða. Varnaðarorð um að vegið yrði að litlum og meðalstórum fyrirtækjum í sjávarútvegi og þjónustufyrirtækjum útgerða voru að engu höfð.
Leo Seafood. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS
Kjarni málflutnings ríkisstjórnarinnar var að meira fé þyrfti til að greiða innviðaskuldina og útgerðin væri aflögufær, fjórar eða fimm fjölskyldur væru ekki of góðar til að borga meira. Nú liggur fyrir að strax hafa 50 manns við fiskvinnslu í Vestmannaeyjum misst atvinnuna vegna stefnunnar. Dulda markmiðið var síðan að búa í haginn vegna baráttunnar fyrir ESB-aðild.
Ríkisstjórnin lofaði að fjölga strandveiðidögum í 48. Atvinnuvegaráðherra Viðreisnar vissi að ekkert yrði unnt að gera til að efna loforðið nema lögum yrði breytt. Ráðherrann lét málið dankast fram yfir þinglok og síðan var forsetaúrskurði um verkaskiptingu milli ráðherra allt í einu breytt og strandveiðar gerðar að byggðamáli undir innviðaráðherra í Flokki fólksins.
Í innviðaráðuneytinu er engin þekking á þessum málum og nú birtast fréttir sem benda til þess að þar ráði menn ekki við verkefnið. Ekkert bólar á reglugerð um skel- og rækjubætur, almennan byggðakvóta eða línuívilnun. Sætir þetta harðri og vaxandi gagnrýni.
Hér er ekki allt sem sýnist frekar en í veiðigjaldsmálinu. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur, sem segist almennt bera góðan hug til ESB, varaði eindregið við sjávarútvegsstefnu ESB í grein í Morgunblaðinu 28. ágúst.
Innan ESB mótaðist stefnan af félagslegum og staðbundnum sjónarmiðum og rétti lítilla sjávarbyggða og lítilla útgerða til veiðiheimilda.
Innan ESB er sjávarútvegur styrkhæfur byggða- og félagsmálapakki. Haukur segir stefnu ESB í andstöðu við íslenska stefnu sem taki mið af stærðarhagkvæmni og hátæknivæddri nýtingu af stórum skala.
Sjávarútvegur sem byggðaverkefni fellur að stefnu ESB. Flutningurinn frá atvinnuvegaráðuneytinu er skref til ESB-áttar.