31.10.2018 9:09

Bitlaus ofnotuð sverð gegn Bjarna

Engu er líkara en þetta komi vinstrisinnum allt í opna skjöldu þótt í raun séu þetta bitlaus sverð vegna þeirra eigin ofnotkunar á þeim.

Allt sem andstæðingar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, blása nú upp enn á ný um fjármálasviptingar fyrir hrun kom fram fyrir ári og flest af því hefur legið fyrir í nokkrum þingkosningum og þegar gengið hefur verið til formannskjörs í Sjálfstæðisflokknum þar sem Bjarni hefur notið mikils trausts.

Að baki þessari miðlun stendur Ingi Freyr Vilhjálmsson á vefsíðunni Stundinni. Hann skrifar nú um þessi mál í Svíþjóð og hefur nú síðast lagt eigin skrif í dóm framkvæmdastjóra „sænskrar stofnunar sem sérhæfir sig í rannsóknum á spillingu og hagsmunaárekstrum“. Einkunnin er ekki há sem honum er gefin: „ólíklegt“ sé að það sem Ingi Freyr lýsir rúmist innan sænskra reglna.

Þegar vinstrisinnar og andstæðingar Bjarna taka til við að túlka skrif Inga Freys á líðandi stundu er engu líkara en þetta komi þeim allt í opna skjöldu þótt í raun séu þetta bitlaus sverð vegna þeirra eigin ofnotkunar á þeim.

1001450Nú er „nýr flötur“ á þessu margnota máli að bera það undir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í von um að málefnasnauðir stjórnmálamenn og álitsgjafar geti rekið fleyg í samstarf stjórnarflokkanna og raskað stjórnmálalegum stöðugleika og jafnvægi sem af því leiðir.

Ingi Freyr Vilhjálmsson sendi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra  spurningar um skrif sín. Hún svaraði meðal annars:

„Vegna þessara nýju reglna [hér á landi sem settar voru eftir hrun] liggja nú fyrir upplýsingar um möguleg fjárhagsleg tengsl þingmanna og ráðherra. Þá liggur einnig fyrir, líkt og fram kemur í frétt Stundarinnar um þessa fyrirspurn, að upplýsingar um margþætt umsvif núverandi fjármálaráðherra í viðskiptalífinu samhliða þingmennsku fyrir hrun höfðu komið fram áður en gengið var til síðustu kosninga. Að sama skapi liggur fyrir að núverandi fjármálaráðherra hefur ekki komið að neinum slíkum umsvifum í áratug. Þessar upplýsingar lágu því fyrir þegar Vinstri græn tóku ákvörðun um að mynda núverandi ríkisstjórn.“

Tveir fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins hafa sætt pólitískum ofsóknum langt út fyrir öll sæmileg mörk vegna hrunsins. Lögum um Seðlabanka Íslands var breytt og þrír bankastjórar settir af til koma Davíð Oddssyni úr bankanum. Landsdómur var kallaður saman, meirihluta þingmanna sem kærði Geir H. Haarde til skammar. Óhróðurinn um Bjarna Benediktsson er af þessum meiði. Hann er langt út fyrir skynsamleg mörk. Stjórnmálamennirnir að baki honum ættu að gæta sóma síns. Hælbíta er hins vegar jafnan erfitt að hemja.