Biskup spyrnir við fæti
Það var engin samfélagssátt um það þegar ákveðið var af yfirvöldum grunnskóla í Reykjavík að skera á tengsl skólanna við kirkjuna.
Það var kurteislega orðað hjá Guðrúnu Karls Helgudóttur, biskup Íslands, í fyrstu jóladagsprédikun hennar að fyrir nokkrum árum „hefði samfélagið byrjað að fjarlægja trú úr almannarými hér á landi“, eins og segir á ruv.is á jóladag, um prédikun biskups í Dómkirkjunni í Reykjavík þann sama dag.
Það var engin samfélagssátt um það þegar ákveðið var af yfirvöldum grunnskóla í Reykjavík að skera á tengsl skólanna við kirkjuna. Um var að ræða þrýsting minnihlutahóps sem var andvígur kristni og kirkju og vildi stækka eigin söfnuð trúlausra.
Þá var einnig tekin pólitísk ákvörðun um að afmá það sem sagði um kristni í námskrá grunnskóla. Markvisst var unnið að því að afmá kristnina í samfélaginu án þess að risið væri gegn því af þeim þrótti sem vænta hefði mátt vegna þess hve margir voru og eru ósáttir við þessa þróun. Merki um hana má sjá enn þann dag í dag meðal annars í neikvæðri afstöðu til þjóðkirkjunnar sem birtist í reglulegum fréttum um hve margir segja sig úr henni.
Guðrún Karls Helgudóttir biskup yfir Íslandi (mynd: biskupsstofa),
„Almannarýmið átti að verða hlutlaust rými en trúin átti að búa í kirkjum og á heimilum, verða einkamál fólks,“ sagði biskupinn á jóladag og einnig: „Þetta leiddi m.a. til þess að smám saman urðum við feimin við að ræða trú og trúmál á almannafæri. Trú varð feimnismál... Ég lít svo á að það hafi verið mistök og að við eigum miklu frekar að opna almannarými fyrir trú, trúarbrögðum, lífsskoðunum og gildum.“
Og einnig:
„Þegar við útilokum umræðu um kristni og kristinfræði úr almannarýminu sviptum við Íslendinga, nýja og gamla, tækifæri til þess að fræðast um og skilja betur sögu okkar og hvernig menning okkar og gildi byggja á þeim arfi og móta okkar daglega líf.“
Og þá sagði biskup:
„Ég held að við verðum mun ríkari sem þjóð ef við opnum almannarýmið fyrir trúar- og lífsskoðunum. Ef við kennum börnunum okkar kristinfræði og um leið fræðum þau um önnur trúarbrögð og lífsskoðanir. Ef skólar, sem hafa tök á, fari með börn í kirkju fyrir jólin og heimsæki önnur trúarbrögð á þeirra hátíðum.“
Vissulega var tímabært að breyta stjórnsýslu kirkjunnar. Stjórnarráðið var afhelgað og þannig orðið við kröfum yfirstjórnar þjóðkirkjunnar um ráð yfir eigin málum. Við því mátti búast að nokkur umbrot yrðu við að koma á nýrri skipan kirkjumála en jóladagsprédikun biskups bendir til að nú hafi skapast fótfesta fyrir þjóðkirkjuna til að láta rödd sína og boðskap heyrast betur í því sem biskupinn kallar almannarými.
Það er ástæðulaust að vera feiminn við að kynna boðskap kristninnar. Engin trúarbrögð hafa haft jafnmikil áhrif á líf manna á jörðunni frá því að jólabarnið fæddist fyrir 2024 árum. Allar tilraunir til að útiloka kristin áhrif á íslenskt samfélag eru dæmdar til að mistakast.
Megi viðleitni biskups til að þoka þessu til betri vegar bera góðan ávöxt!