Birgir er ekki Miðflokkurinn
Vegna skoðana sinna og starfa á þingi í eitt kjörtímabil náði Birgir að hljóta fyrsta sætið á framboðslista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Flokkurinn fékk hroðalega útreið í kosningunum.
Birgir Þórarinsson, nýkjörinn þingmaður Miðflokksins, ákveður nokkrum dögum eftir kosningar að ganga til liðs við þingflokk sjálfstæðismanna. Þing hefur ekki komið saman og unnið er að gerð nýs stjórnarsáttmála. Vegna skoðana sinna og starfa á þingi í eitt kjörtímabil náði Birgir að hljóta fyrsta sætið á framboðslista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Flokkurinn fékk hroðalega útreið í kosningunum.
Birgir segir að við röðun á framboðslista hafi innan flokks verið að sér vegið og viðmótið í sinn garð í þriggja manna þingflokki Miðflokksins sé á þann veg að vænlegra sé fyrir sig og stefnumál sín að vinna að framgangi þeirra undir merkjum þingflokks sjálfstæðismanna..
Að þingmaður fari úr einum þingflokki í annan er síður en svo óalgengt. Hvort þingmenn ákveði að gera það nokkrum dögum eftir kosningar, á miðju kjörtímabili eða í aðdraganda kosninga skiptir engu.
Á nýliðnu kjörtímabili sögðu tveir þingmenn sig til dæmis úr þingflokki VG, annar gekk til liðs við Pírata, hinn fór í Samfylkinguna. Í aðdraganda kosninganna voru báðir þingmennirnir valdir á framboðslista. Andrés Ingi Jónsson situr áfram á þingi, nú fyrir Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður. Rósa Björk Brynjólfsdóttir náði ekki kjöri á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður en reynir fyrir sér í deilu um úthlutun jöfnunarsæta. Henni var hafnað af samfylkingarfólki í SV-kjördæmi og framboð hennar í Reykjavík leiddi til opinberrar úrsagnar fólks úr Samfylkingunni.
Mun minna var fjargviðrast yfir úrsögn Andrésar
Inga og Rósu Bjarkar úr VG en vegna vistaskipta Birgis Þórarinssonar. Fréttastofa
ríkisútvarpsins vitnar meira að segja til orða Veroniku Steinunnar Magnúsdóttur, formanns Heimdallar,
félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem áréttar á Twitter að
enginn eigi að sitja í þingflokki sjálfstæðismanna nema þeir sem valdir hafi
verið á lista flokksins í prófkjöri. Vissulega er þetta nýmæli og fréttnæm
afstaða en að formaður Heimdallar komist í ríkisfréttirnar er í raun stærri frétt.
Grétari Þór Eyþórssyni, prófessor í stjórnmálafræði
við Háskólann á Akureyri, segir við Fréttablaðið
laugardaginn 9. október að tímasetning Birgis veki „upp grunsemdir um að það
hafi verið búið að undirbúa þetta í einhvern tíma“. Prófessorinn gefur ekki nánari
skýringar á þessum orðum en segir einnig:
„Hann [Birgir] gæti verið að reyna að auka möguleika sína á að komast í nefndir í gegnum þingflokk Sjálfstæðismanna. Mjög lítill Miðflokkur með tvo eða þrjá þingmenn á mjög litla möguleika þegar á að fara að kjósa í nefndir. Þetta eru auðvitað kaldar kveðjur til þeirra sem unnu fyrir því að koma manninum inn á þing. Það er ekki hægt að sjá þetta öðruvísi.“
Er ekki þverstæða í orðum prófessorsins? Er ekki betra fyrir þá sem komu Birgi á þing að hann skipi sér í þingflokk sem tryggir honum sæti í nefndum heldur en að sitja úti í kuldanum bæði í þingflokki Miðflokksins og við val í þingnefndir? Var ekki Birgir meginástæða þess að Miðflokkurinn fékk mann kjördæmakjörinn í Suðurkjördæmi? Fylgisleysi Miðflokksins annars staðar bendir til þess.