27.3.2022 10:45

Biden vill Pútin á brott

Viðbrögðin á heimavelli við orðum Bidens eru í raun undarlegri en það sem forsetinn sagði.

Joe Biden flutti ræðu í Varsjá laugardaginn 26. mars þar sem hann fór hörðum orðum um Vladimir Pútin Rússlandsforseta kallaði hann meðal annars „slátrara“ og lauk máli sínu með því að segja að maður eins og Pútin gæti ekki „setið áfram við völd“.

Fyrr í vikunni sat Biden toppfund NATO þar sem ályktað var:

„Við [ríkisoddvitar NATO-þjóðanna] fordæmum harðlega gjöreyðandi árásir Rússa á almenna borgara, þar á meðal konur, börn og fólk í viðkvæmri stöðu. Við munum vinna að því með öðrum í alþjóðasamfélaginu að þeir sæti ábyrgð sem gerast sekir um brot á mannúðar- og alþjóðalögum, þar á meðal stríðsglæpi. Við höfum miklar áhyggjur af vaxandi hættu á kynferðislegu ofbeldi og mansali.“

Þessi orð eru svo þungur áfellisdómur yfir Pútin og ábyrgð hans á stríðinu í Úkraínu að undrun vekur uppnámið sem víða hefur orðið vegna orða Bidens um að Pútin geti ekki setið áfram við völd. Biden hafði vart lokið máli sínu fyrr en embættismenn í Hvíta húsinu tóku að skýra lokaorð hans á þann veg að hann hefði mælt þau frá eigin brjósti en ekki lesið af blöðum embættismannanna, þau ætti ekki að skilja á þann veg að Biden ætlaði að blanda sér í rússnesk heimastjórnmál.

Biden-warsaw-rt-jt-220326_1648315580201_hpMain_16x9_992Joe Biden flytur ræðu í Varsjá 26. mars 2022.

Að morgni sunnudags 27. mars sagði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Bandaríkjastjórn hefði ekki mótað neina stefnu um stjórnarskipti (e. regime change) í Rússlandi.

Viðbrögðin á heimavelli við orðum Bidens eru í raun undarlegri en það sem forsetinn sagði.

Rússneski skákmeistarinn Garrí Kasparov, harður andstæðingur Pútins, sagði réttilega á Twitter um orð Bidens:

„Enginn leiðtogi í hinum frjálsa heimi ætti að hika við að segja það hreint út að heimurinn væri mun betri staður ef Pútín væri ekki lengur við völd í Rússlandi. Góð aðferð til að koma því til leiðar er einmitt að segja það.“

Kasparov sagði einnig:

„Þegar forsetinn hefur rétt fyrir sér ættu embættismenn Hvíta hússins að standa með honum í stað þess að baksa við að biðja morðóðan einræðisherra afsökunar. Það er aumkunarvert.“

Fréttastofa ríkisútvarpsins sagði rétt frá viðbrögðum Kasparovs en á mbl.is var fyrirsögn á frétt um málið þessi: Kasparov segir Biden hafa leikið af sér. Fyrirsögnin var með öðrum orðum alröng. Kasparov taldi Biden alls ekki hafa leikið af sér heldur embættismenn hans.

Að blása þessi ummæli Bidens upp á þann veg sem gert er af þeim sem gagnrýna þau og afflytja síðan orð Kasparovs á þann veg sem gert er í fyrirsögn á mbl.is er að sjálfsögðu smámál í sögu Úkraínustríðsins.

Í stóra samhenginu hefur Pútin fyrirgert stöðu sinni sem marktækur leiðtogi þjóðar sinnar. Hann stendur uppi sem einræðisherra, sekur um stríðsglæpi og brotlegur við alþjóðalög. Þeir sem bera í bætifláka fyrir hann hér á landi skipa sér í raðir með þeim sem báru lof á Stalín sem stórmenni.