18.3.2021 12:20

Biden sneiðir að Pútin

Annar tónn er í garð Vladimirs Pútins Rússlandsforseta í Hvíta húsinu en í tíð Donalds Trumps eftir að Joe Biden varð þar húsbóndi.

Annar tónn er í garð Vladimirs Pútins Rússlandsforseta í Hvíta húsinu en í tíð Donalds Trumps eftir að Joe Biden varð þar húsbóndi. Raunar er óskiljanlegt að Trump skyldi telja að bein eða óbein vinarhót af hans hálfu í garð Pútins hefðu jákvæð áhrif á stjórnarhætti rússneskra yfirvalda heima fyrir eða gagnvart öðrum þjóðum. Pútin og menn hans fóru að sjálfsögðu sínu fram, hertu tökin á Rússum og urðu ósvífnari í garð annarra.

Við fyrstu gagnrýni frá Biden ákveður Pútin að kalla sendiherra sinn heim frá Washington. Miðvikudaginn 17. mars sagði Biden að afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum í nóvember 2020 yrðu Pútin „dýrkeypt“.

Orðin féllu í samtali Bidens við George Stephanopoulos á ABC-sjónvarpsstöðinni þegar rætt var við forsetan vegna nýbirtrar skýrslu frá bandarískum leyniþjónustustofnunum um fjölþátta íhlutun Rússa í kosningabaráttu Bidens og Trumps á árinu 2020.

Í samtalinu var Biden spurður hvað honum þætti um ásakanir í garð Pútins, að hann eitraði fyrir pólitískum andstæðingum sínum, hvort hann teldi þess vegna að Pútin væri morðingi (e. killer). Biden svaraði: „Ég geri það.“

773x435_cmsv2_3c1a9a3d-fb01-5a23-8e01-c3d0946c9ff3-5458800Joe Biden í Hvíta húsinu 15. mars 2021.

Þegar Pútin kallaði rússneska sendiherrann heim frá Washington eftir að þessi ummæli Bidens birtust opinberlega vísaði rússneska utanríkisráðuneytið ekki til orða Bidens heldur sagði heimköllun sendiherrans lið í athugunum rússneskra stjórnvalda á hvert skuli stefna í samskiptum við Bandaríkjastjórn. Mat yrði lagt á það sem gerðist fyrstu 100 dagana í stjórnartíð Bidens. Rússar vildu koma í veg fyrir „óafturkallanlega öfugþróun“ í samskiptum við Bandaríkjamenn.

Í tilefni svars Bidens um Pútin er nú rifjað upp að í febrúar 2017, skömmu eftir að Trump varð forseti, fullyrti fréttamaður Fox News-sjónvarpsstöðvarinnar að Pútin væri „morðingi“ en Trump brást við ummælunum á þann veg að mörgum brá í brún innan og utan Bandaríkjanna. Trump forseti sagði: „Margir morðingjar, margir morðingjar. Haldið þið að land okkar sé alveg saklaust?“

Þessi ummæli og mörg önnur sem ekki var unnt að túlka á annan veg en viðleitni til að koma sér í mjúkinn hjá Pútin einkenndu margt sem Trump sagði í forsetatíð sinni.

Kim Yo Jong, systir harðstjórans í Norður-Kóreu hefur nú í heitingum við Bandaríkjastjórn í tilefni af fyrstu ferð utanríkisráðherra hennar og varnarmálaráðherra til S-Kóreu og Japans nú í vikunni. „Vilji hún [Biden-stjórnin] sofa í friði næstu fjögur ár ætti hún að forðast að skapa fnyk með fyrsta skrefi sínu,“ sagði systirin.

Donald Trump taldi það sérstaka rós í hnappagat sitt og stuðningsmenn hans líktu honum við eilífan friðflytjanda þegar hann hitti Kim Jong-un harðstjóra á fundi í Singapúr árið 2018. Fundurinn skilaði því einu að Kim Jong-un baðaði sig í ljósi fjölmiðla og stillti sér upp sem jafnoki Trumps. Verður fundarins örugglega minnst sem furðuatviks þegar fram líða stundir.

Með forsetaskiptunum í Bandaríkjunum hafa orðið meiri umskipti í afstöðu Bandaríkjastjórnar í utanríkismálum en áður. Samanburðurinn verður meira spennandi eftir því sem fleira gerist.