22.7.2024 12:07

Biden kveður – Harris bíður

Enn er of snemmt að slá því föstu hver tekur við framboðskeflinu af Joe Biden.

Eins og vænta mátti eftir allt sem á undan er gengið ákvað demókratinn Joe Biden (81 árs) að verða ekki í framboði til endurkjörs í forsetakosningunum í nóvember. Það varð lýðum ljóst í sjónvarpskappræðum hans og Donalds Trumps, frambjóðandi repúblikana, 27. júní 2024 að Biden hefði hvorki andlegt né líkamlegt þrek til að taka slaginn við Trump.

Um miðja liðna viku lét Biden enn eins og hann gæti barist til sigurs. Hann fékk þá COVID-19 og dró sig í hlé. Síðdegis laugardaginn 20. júlí kallaði Biden nána samstarfsmenn til fundar og sömdu þeir bréf sem hann kynnti síðan fyrirvaralaust á X sunnudaginn 21. júlí. Hann hætti sem frambjóðandi en lýsti um leið stuðningi við varaforseta sinn, Kamölu Harris (59 ára).

Screenshot-2024-07-22-at-12.05.28Kamala Harris og Joe Biden á kosningafundi.

Innan flokks demókrata eru ekki allir á einu máli um hvort Harris geti sigrað Donald Trump (78 ára). Hann verður nú elstur allra til að stefna að forsetaembættinu í Bandaríkjunum. Eftir að launmorðingi skaut á hann 13. júlí hefur Trump orðið enn sjálfhverfari en áður og talar nú um sjálfan sig sem píslarvott lýðræðisins.

Til að yngja upp ímynd sína valdi Trump öldungardeildarþingmanninn JD Vance (39 ára) sem varaforsetaefni sitt. Vance er óþekkt stærð en þykir eiga auðvelt með að laga sig að aðstæðum, hann hefur t.d. til þessa talið sér henta að vinna gegn stuðningi Bandaríkjamanna við Úkraínu.

Miðvikudaginn 24. júlí koma þeir saman innan Demókrataflokksins sem ákveða hvernig staðið verður að vali á nýjum frambjóðanda í stað Bidens. Árið 1968 ákvað forseti demókrata, Lyndon B. Johnson, að segja sig frá endurkjöri. Þrátt fyrir góðan árangur í samskiptum við Bandaríkjaþing um umbætur á bandarísku þjóðfélagi átti hann ekki upp á pallborðið hjá kjósendum vegna stríðsins í Víetnam.

Eftir því sem leið á sunnudaginn 21. júlí fjölgaði þingmönnum og ríkisstjórum demókrata sem styðja Harris. Þá lýstu flokksformenn demókrata í 50 ríkjum Bandaríkjanna stuðningi við Harris. Sama gerðu forsetahjónin fyrrv., Hillary og Bill Clinton.

Stórir fjárhagslegir stuðningsmenn demókrata, þ. á m. George og Alex Soros, lýstu strax stuðningi við Harris. Smærri stuðningsmenn tóku einnig kipp og lögðu fram 50 m. dollara á nokkrum klukkustundum.

Nancy Pelosi, fyrrv. þingforseti, sem beitti sér af þunga gegn framboði Bidens og fyrrv. forseti Barack Obama, sem réð líklega úrslitum um ákvörðun Bidens, létu hjá líða að lýsa yfir stuðningi við Harris þegar þau báru lof á ákvörðun Bidens.

Obama sagði flokkinn standa frammi fyrir áður óþekktu viðfangsefni en hann taldi víst að flokksforystumenn mótuðu ferli til að tryggja val á frábærum frambjóðanda.

Obama vill með öðrum orðum að fram fari val og Harris sigli ekki án kosninga í einni eða annarri mynd í framboðssætið. Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, hefur ekki heldur sagt neitt um hvern hann vill sem frambjóðanda.

Enn er of snemmt að slá því föstu hver tekur við framboðskeflinu af Joe Biden.