23.10.2020 10:08

Biden hefur undirtökin

Ekki er undarlegt að Biden leggi áherslu á „karakter“ þegar hann glímir við Trump og vinni fylgi með því.

Þegar dró að lokahrinu bandarísku kosningabaráttunnar sagði ég upp áralangri netáskrift á The New York Times (NYT) vegna þess að áróðurinn gegn Donald Trump varð of taumlaus .

Uppsögnin var ekki reist á meðaumkun með Trump því að gagnrýni á hann truflar mig ekki heldur vildi ég leggja mitt litla lóð á vogarskál þeirra sem biðja um hlutlægari málflutning í blaði sem notið hefur trausts áratugum saman fyrir skýr skil á milli frétta og skoðana.

Fyrir nokkru vakti tortryggni þegar kona við stjórn aðsendra greina hrökklaðist af ritstjórn NYT vegna þess að þar birtist grein sem samstarfsfólki hennar líkaði ekki og stofnaði til ófræginarherferðar innan ritstjórnarinnar.

Eftir forsetakosningarnar 2016 sendi útgefandi NYT áskrifendum bréf þar sem hann baðst afsökunar á hve ritstjórnin varð heltekin af því að boða skoðanir sínar í aðdraganda kosninganna og lofaði bót og betrun. Við það var ekki staðið.

Im-248827Kappræður forsetaframbjóðendanna 22. október 2020.

Í stað þess að fá holskefluna frá NYT daglega yfir mig ákvað ég að prófa áskrift að The Wall Street Journal (WSJ). Þar á bæ blæs andinn gegn demókrötum og Joe Biden þótt blaðið allt sé líklega ekki eins gegnsýrt af flokkspólitískum sjónarmiðum og NYT.

Í leiðara WSJ í dag (23. október) er farið orðum um lokakappræður Donalds Trumps og Joes Bidens í nótt að íslenskum tíma. Þar segir að Trump hafi búið sig betur undir þessa lotu en en þá fyrri, tapi hann í kosningunum 3. nóvember geti hann sjálfum sér um kennt vegna óðagotsins í fyrri lotunni.

Nú hafi hann flutt öflugustu vörn sína til þessa fyrir stefnu sinni og aðgerðum gegn kórónuveirunni. Þá hafi hann reynt að „negla“ Joe Biden með því að ræða stefnumál hans og viðskipti fjölskyldu Bidens við erlend ríki. Biden hafi varist höggunum eftir bestu getu og síendurtekið boðskap sinn um „karakter“ og að binda yrði enda á sundrungarstjórnmál. Þar sem kannanir sýni örugga forystu Bidens og 40 milljónir manna hafi þegar kosið veðji hann á að vinna á tíma.

Blaðið segir að kosningabarátta Bidens hafi næstum einvörðungu verið reist á „karakter“ og COVID-19 og hún skili árangri þótt Biden hafi í raun ekkert fram að færa gegn veirunni annað en innantóm orð og nauðsyn þess að ganga með grímu.

WSJ segir að stjórnandi umræðnanna hafi ekki leyft Trump að ræða efnahagsmál. Biden hafi hins vegar lýst kjarna loftslagsstefnu sinnar þegar hann sagðist vilja leggja af olíuiðnaðinn. Hann hefði gefið til kynna að hann ætlaði ekki tafarlaust að banna „fracking“, það er orkuvinnslu með niðurbroti jarðefna neðanjarðar. Trump hafi rétt fyrir sér þegar hann segi að útblástur koltvísýrings hafi minnkað í Bandaríkjunum vegna nýtingar á jarðgasi. Þeir sem hafi atvinnu af vinnslu jarðefnaeldsneytis og iðnaði tengdri henni ættu að átta sig á að Biden vilji gera þá atvinnulausa.

Ekki er undarlegt að Biden leggi áherslu á „karakter“ þegar hann glímir við Trump og vinni fylgi með því. Ummæli Trumps um menn og málefni, sjálfumgleði og ofstæki í garð annarra, allt þetta vekur andúð og leiðir til þess að margir taka af sér flokksgleraugun þegar þeir kjósa, þeir vilja ekki Trump hvað sem þeim finnst um Biden.