11.5.2022 9:20

Ber blak af braggahneykslinu

„Við lítum ekki svo á að við séum í vinstri meirihluta, bara alls ekki,“ segir oddviti Viðreisnar eftir fjögur ár í meirihluta Dags B.

Viðreisn, flokkurinn sem var stofnaður vorið 2016 til að vinna að aðild Íslands að ESB, er hjól undir meirihlutavagni Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, hefur verið formaður borgarráðs á kjörtímabilinu sem er að ljúka.

Viðreisn skipar sér á miðju stjórnmálanna og þingmenn flokksins gegna því hlutverki í þingsalnum við Austurvöll að tala öllum stundum, án tillits til málefna, í því skyni að gera ríkisstjórninni lífið leitt. Þingmennirnir segjast í öðru orðinu vera borgaralega sinnaðir og aðhyllast lausnir sem flokkast hafa hægra megin við miðju stjórnmálanna en í ræðum keppa þeir í stefnu og stóryrðum við þingmenn Pírata og Samfylkingar. Má stundum ekki á milli sjá hver gengur lengst á leið popúlismans í hita leiksins.

Það er ekki síður popúlismi til vinstri en hægri. Marine Le Pen, leiðtogi popúlismans í Frakklandi, er sögð til hægri vegna afstöðu sinnar í útlendingamálum en þegar litið er til annarra mála fylgir hún vinstrisinnaðri stefnu. Þórdís

1341358Þórdís Lóa Þórhallsdóttir ræðir við blaðamann í Dagmálum Morgunblaðsins.

Í samtali við Morgunblaðið í dag skilgreinir Þórdís Lóa stöðu sína og Viðreisnar í borgarstjórn á þennan veg:

„Við lítum ekki svo á að við séum í vinstri meirihluta, bara alls ekki. Við erum það hægrisinnuð meira að segja að Sanna í Sósíalistum getur ekki hugsað sér að fara í þennan meirihluta.“

Jafnan hefur verið litið þannig á að um vinstri meirihluta sé að ræða þar sem sjálfstæðismenn sitja ekki. Nú gerir Þórdís Lóa kröfu um nýja skilgreiningu á þessu gamalgróna hugtaki. Sé fulltrúi sósíalistanna Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Gunnars Smára Egilssonar í Sósíalistaflokki Íslands utan samstarfs sé ekki um vinstra samstarf að ræða.

Orð oddvita Viðreisnar vekja spurningu um hvort Sönnu Magdalenu Mörtudóttur hafi á sínum tíma verið boðið að verða hjól undir vagni Dags B. og hún svarað á þann veg sem Þórdís Lóa lýsir. Eða eru orð oddvita Viðreisnar aðeins tilbúin afsökun?

Allir aðrir í meirihlutanum en Viðreisn, það er VG, Samfylking og Píratar, líta á sig sem vinstri flokka og í meirihlutasáttmála flokkanna frá 12. júní 2018 er ekki eitt orð sem skapar samstarfinu þá sérstöðu að ekki sé um hefðbundið vinstra samstarf að ræða.

Þórdís Lóa kennir lóðaskorti um að malbikunarstöð Reykjavíkurborgar var ekki seld. Það er hreinn fyrirsláttur, vinstri menn vilja ekki selja stöðina og því síður einkavæða bílastæðahús eins og Þórdís Lóa segist vilja.

Eitt skýrasta dæmi kjörtímabilsins um stjórnleysi og fjáraustur er endurgerð Nauthólsvíkurbraggans og flutningur á dönskum stráum að honum. Í hita umræðna um hneykslið var Þórdís Lóa starfandi borgarstjóri og varði óráðsíuna. Nú segir hún í Morgunblaðinu: „Það var enginn sem ætlaði sér neitt vont í þessu. Hlutirnir fengu bara að keyrast áfram án þess að eitthvað gripi inn í.“

Viðreisn sættir sig svo vel við að hlutirnir keyrist bara áfram við stjórn Reykjavíkurborgar að hún stefnir á að verða hjól í sama meirihluta næstu fjögur ár.