Bensínreiturinn við Skógarhlíð
Eins og af þessari lýsingu sést verður þessum hluta Skógarhlíðar gjörbreytt með þeim áformum skipulagsyfirvalda að á bensínlóðinni rísi fjórar nýbyggingar í kringum bensínstöðina.
Borgarráð samþykkti 26. júní að breyta skipulagi við Skógarhlíð í Reykjavík þar sem nú stendur bensín- og smurstöð í húsi sem Þór Sandholt hannaði og reist var fyrir Shell fyrir 71 ári, 1954. Tillaga er um að gamla bensínstöðin verði friðuð og er gert ráð fyrir að hún standi áfram en fái á sig torfþak megi marka myndir frá Reykjavíkurborg.
Fyrir vestan lóðina, sem er númer 16 við Skógarhlíð, er slökkvistöð, aðsetur landhelgisgæslunnar, vakstöð hennar og til skamms tíma að minnsta kosti samhæfingarstöð almannavarna.
Fyrir austan lóðina er heilsugæslustöðin Hlíðar. Var hún nýlega flutt úr Dráðuhlíð í þetta húsnæði sem fellur vel að starfsemi hennar.
Á horni Skógarhlíðar, Bústaðavegar og Litluhlíðar er hús sem Karlakór Reykjavíkur reisti á sínum tíma og var nefnt Ýmir en er nú bænahús múslíma og stendur bænaturn við hlið þess. Í jarðhæð hússins er farfugla- eða gistiheimili.
Þar á móti eru Þóroddsstaðir sem sagðir eru vera nr. 22 við Skógarhlíð þótt með réttu ætti þar að vera oddatala. Húsið Þóroddsstaðir er þrílyft steinhús í bustabæjarstíl reist árið 1927 sem erfðafestubýli. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsinu. Á tíma annarrar heimsstyrjaldarinnar, 1942, tók setuliðið húsið og breytti fjósi og hlöðu í baðhús. Eftir stríð var trésmíðaverkstæði starfrækt í húsinu í langan tíma. Síðustu árin hafa Þóroddsstaðir verið nýttir undir ýmiss konar þjónustu.
Þessar myndir Reykjavíkurborgar sýna hvernig breyta á bensínreitnum við Skógarhlíð. Myndin til vinstri sýnir reitinn núna en til hægri er sýnt hvernig þar má koma fyrir 85 íbúðum.
Eins og af þessari lýsingu sést verður þessum hluta Skógarhlíðar gjörbreytt með þeim áformum skipulagsyfirvalda að á bensínlóðinni rísi fjórar nýbyggingar í kringum bensínstöðina en ætlunin er að „virkja [hana] í þágu íbúa hverfisins“ eins og segir í greinargerð skipulagstillögunnar.
Þar er jafnan vitnað í samkomulag olíufélaganna við Reykjavíkurborg um fækkun bensínstöðva sem Dagur B. Eggertsson, þáv. borgarstjóri, gerði sumarið 2021, með svo mikilli leynd að aðeins útvaldir fá að lesa samningana í lokuðu rými í ráðhúsinu.
Þetta samkomulag vakti tortryggni þegar það var gert og nú deilur þegar kemur að framkvæmd þess eins og mótmælin vegna fyrirhugaðra framkvæmda á bensínreit við Birkimel sýna.
Í húsunum við Skógarhlíð með gömlu bensínstöðina sem miðpunkt er gert ráð fyrir þjónustu á hluta jarðhæðar og 85 íbúðum með 66 bílastæðum í kjallara (engin ofan jarðar) og 191 hjólastæði en 90% þeirra skulu vera í læstu rými. Sagt er að þessi lóð henti vel fyrir bíllausan lífsstíl. Bílakjallarinn á að vera opinn almenningi með aðgangsstýringu á daginn og fyrir íbúa á kvöldin. Alls skulu 17 íbúðir (20%) vera leigíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða.
Nú kemur í ljós hvort friður verður um þessa tillögu. Ástæða er til að lýsa yfir undrun vegna hennar og áformanna um að fara þessa leið í stað þess að nýta lóðina til dæmis fyrir byggingu í þágu lögreglu, björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila sem segja má að séu nú á hrakhólum eða í þágu hjúkrunarheimilis í nágrenni prýðilegrar heilsugæslu.