Beitarland – endurheimt votlendis
Einkennilegt er að ekki skuli minnst á beitarland í þessu sambandi. Rannsóknir á bindingu þess standa alls ekki að baki rannsóknum á bindingu votlendis.
Áhugamönnum um bindingu kolefnis í jörðu skal bent á frétt í Bændablaðinu 11. september. Sigurður Már Harðarson blaðamaður segir að upptaka kolefnis hafi reynst 41,5% minni í friðuðu landi en í landi þar sem sauðfé hafi verið á beit. Þetta séu niðurstöður ExGraze-rannsókna á kolefnisbúskap í úthögum árin 2022 og 2023.
Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor við Háskólann á Hólum, stýrði rannsókninni. Hún segir að einnig hafi marktækt minna kolefni verið í efsta tíu sentimetra jarðvegslaginu í friðaða landinu samanborið við það beitta.
„Mun meira mældist af kolefni í graslendinu en í birkiskóginum og mólendinu í okkar rannsókn. Aðeins ein rannsókn hefur áður verið gerð á varðandi mælingar á magni kolefnis í graslendisjarðvegi á Íslandi og sýndi hún svipað eða nokkuð meira magn kolefnis í graslendisjarðvegi,“ segir Anna Guðrún. Þetta sé í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna á sambærilegum svæðum.
Votlendi - af síðu Votlendissjóðs.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti föstudaginn 12. september forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þar er að finna nýtt landsákvarðað framlag Íslands samkvæmt Parísarsamningnum frá 2015. Segir í tilkynningu ráðuneytisins að sett hafi verið fram metnaðarfull, framkvæmanleg og skýr markmið í loftslagsmálum til 2035.
Áhersla er lögð á endurheimt votlendis og vistkerfa. Segir í tilkynningunni að aðgerðin hafi „margþættan umhverfislegan ávinning“. Hugsanlega leiði samhent átak til árlegs samdráttar í losun frá landi sem nemi allt að 617 þúsund tonnum árið 2035 með vistheimt, landgræðslu og skógrækt. Segir ráðuneytið allt að þriðjung þessara aðgerða geta farið fram hratt á ríkisjörðum.
Einkennilegt er að ekki skuli minnst á beitarland í þessu sambandi. Rannsóknir á bindingu þess standa alls ekki að baki rannsóknum á bindingu votlendis. Í raun er þörf á að eyða efasemdum um skynsemi þess að fylla upp í alla skurði á ríkisjörðum. Það verður aðeins gert með rannsóknum og vottunum.
Aðalsteinn Jónsson, vinur á Facebook, sem segist hafa „lifað með landinu og náttúrunni frá fyrstu sporum“ varð fyrir vonbrigðum með ofangreindar áherslur umhverfisráðherra varðandi endurheimt votlendis.
Aðalsteinn sagði á FB 13. september að það væri ekki reist á „óyggjandi“ rannsóknum „að moka ofan í fimmtíu til sjötíu ára skurði á ríkisjörðum sem loftlagsaðgerð“. Taldi hann þetta náttúruspjöll, allt landbúnaðarland ætti að varðveita og nýta. Við það yrðu til verðmæti, landbúnaður væri ein af grunnstoðum hvers sjálfstæðs þjóðfélags, standa yrði vörð um landið og nýtingu þess. Hér væri nóg af mýrlendum heiðarlöndum og óþarft væri að breyta ræktunarlandi fyrir matvæli og korn í mýrlendi. Minni innflutningur matvæla minnkaði losun kolefnis. „Hugsum áður en við breytum framræstu ræktarlandi í forarmýrar,“ sagði Aðalsteinn
Eftir fundi með bændum um allt land á sínum tíma þar sem þessi mál bar á góma undrar mig ekki að margir taki undir þessi viðvörunarorð Aðalsteins.
Við hvaða rannsóknir skyldi stuðst varðandi endurheimt votlendis? Eru þær sambærilegar og rannsóknirnar á kolefnisbindingu beitarlands?