Beðið eftir Verði
Mikið er í húfi fyrir sjálfstæðismenn í Reykjavík, að halda stöðunni sem stærsti flokkurinn í borgarstjórn og auka styrk sinn enn frekar. Vörður hlýtur að taka endanlega af skarið fyrr en síðar um aðferðina við val á framboðslistann.
Sé farið inn á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins, xd.is, til að kynna sér undirbúning vegna sveitarstjórnaskosninganna 14, maí 2022 má meðal annars finna upplýsingar um komandi prófkjör. Á listanum kemur fram að prófkjör hafa verið ákveðin á þessum stöðum:
Akureyri
Prófkjör, laugardaginn 26. mars.
Kópavogur
Prófkjör, laugardaginn 12. mars..
Fjarðabyggð
Prófkjör, laugardaginn 26. febrúar.
Mosfellsbær
Prófkjör laugardaginn 5. febrúar.
Garðabær
Prófkjör, laugardaginn 5. mars.
Múlaþing
Prófkjör, laugardaginn 12. mars.
Hafnarfjörður
Prófkjör dagana 3., 4. og 5. mars.
Seltjarnarnes
Prófkjör, laugardaginn 26. febrúar.
Nú er réttur mánuður frá því að frétiir bárust um að meirihluti stjórnar Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hefði að kvöldi miðvikudags 15. desember ákveðið, öllum að óvörum, að ekki yrði haldið opið, almennt prófkjör um skipan framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna. Vildi meirihluti stjórnar Varðar að kosið yrði um efsta sæti á listanum í prófkjöri, það er að efnt yrði til svonefnds leiðtogaprófkjörs eins og gert var fyrir kosningarnar 2018.
Ákvörðun meirihluta stjórnarinnar mæltist vægt sagt illa fyrir. Til að ákvörðunin nái fram að ganga þarf aukinn meirihluti á almennum fundi fulltrúaráðsins að staðfesta hana.
Þegar ákvörðunin var tekin hafði Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi lýst áhuga á að leiða D-listann í komandi kosningum. Þá var ekki heldur annað vitað en Eyþór Arnalds, núverandi oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, ætlaði að bjóða sig fram að nýju. Nú hefur Eyþór tilkynnt að hann geri það ekki.
Opinberlega heyrist hvorki hósti né stuna frá stjórn Varðar. Ákvörðunin um leiðtogaprófkjör virðist standa þótt Hildur vilji að fram vari almennt prófkjör.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar að bjóða sig fram að nýju, fyrst í flokksvali Samfylkingar og síðan á lista flokksins. Þetta var ekki vitað fyrr en mánudaginn 10. janúar.
Mikið er í húfi fyrir sjálfstæðismenn í Reykjavík, að halda stöðunni sem stærsti flokkurinn í borgarstjórn og auka styrk sinn enn frekar. Vörður hlýtur að taka endanlega af skarið fyrr en síðar um aðferðina við val á framboðslistann. Ekki er eftir neinu að bíða.