11.11.2025 10:18

BBC úti í skurði

Árlegt afnotagjald til BBC er 174,50 pund, um 30.000 ISK, og eru árstekjur BBC um 3,8 milljarðar punda. Í Bretlandi eins og hér blöskrar mörgum þessi tekjuöflun með skyldugjöldum til ríkisútvarps.

Dómgreindarskorturinn og klúðrið á BBC gengur fram af fjölmiðlamönnum um heim allan. BBC sætir til dæmis mikilli gagnrýni í Bandaríkjunum. Blöðin The New York Times og The Wall Street Journal (WSJ) segja rækilega frá vandræðum BBC í dag (11. nóv.) og til marks um það má vitna í leiðara WSJ. Þar segir í upphafi:

„Þegar kemur að hruni fjölmiðla verður það varla verra en klúðrið hjá breska ríkisútvarpinu, BBC. Yfirmaður þessa alþjóðlega risa sagði af sér um helgina og Trump forseti hótar að lögsækja fyrirtækið og krefja það um einn milljarð dala.

Tim Davie, útvarpsstjóri BBC, gat lítið annað en sagt af sér, og það sama gilti um yfirmann fréttasviðs BBC, Deboruh Turness. Í minnisblaði sem lekið var til dagblaðsins Telegraph í síðustu viku varaði Michael Prescott, fyrrverandi ráðgjafi innri siðanefndar útvarpsins, stjórn BBC við röð af pólitískri haugalygi í fréttaflutningi BBC. [...]
Og við meinum „haugalygi“. Trump er ævareiður vegna þess að í fréttaskýringaþættinum Panorama í fyrra voru tveir bútar úr ræðu hans frá 6. janúar 2021 klipptir saman þótt nærri klukkustund hefði liðið á milli þeirra. Tilgangurinn var að gefa áhorfendum í skyn að Trump hefði hvatt stuðningsmenn sína til að ráðast á þinghúsið.

Í sama þætti voru sýndar myndir af Proud Boys-hópnum ganga að þinghúsinu eftir að falsaða klippan úr ræðu Trumps var sýnd, skapaði þetta þá ímynd að þeir hefðu brugðist við kalli hans. Þessar myndir af Proud Boys voru hins vegar teknar áður en Trump hóf ræðu sína þann dag. Gleymum hlutdrægni fjölmiðla – þetta er önnur vídd veruleikans.“

Þá segir WSJ að fréttaflutningur BBC af málefnum trans fólks hafi verið undir stjórn „LGBTQ-deildar“ fréttastofunnar. Hún hafi bælt niður fréttaflutning sem stangaðist á við frjálslynda rétttrúnaðarstefnu.

Screenshot-2025-11-11-at-10.16.10

Tim Davie sagði af sér sem útvarpsstjóri BBC.

Loks lýsi Prescott viðvarandi meinbugum á umfjöllun BBC um stríð Ísraela og Hamas. Arabíska deild BBC virðist hafa farið algjörlega úr böndunum. Fáar fréttir gáfu jákvæða mynd af Ísrael og deildin hafi neyðst til að leiðrétta tvær fréttir á viku að meðaltali frá hryðjuverkaárás Hamas 7. október 2023.

Árlegt afnotagjald til BBC er 174,50 pund, um 30.000 ISK, og eru árstekjur BBC um 3,8 milljarðar punda. Í Bretlandi eins og hér blöskrar mörgum þessi tekjuöflun með skyldugjöldum til ríkisútvarps, séu þau ekki greidd á skuldarinn 1.000 punda sekt yfir höfði sér.

WSJ segir að vinstrisinnaðir blaðamenn hafi fundið „leiðir til að nýta þennan stuðning skattgreiðenda til að koma eigin stefnumálum á framfæri“. Íhaldsmönnum hafi reynst erfitt að beita BBC aga. Tom Davie sé gott dæmi um þetta: Hann var í Íhaldsflokknum á yngri árum og stjórn BBC réð hann árið 2020, meðal annars til að þóknast þáverandi íhaldsstjórn. „Davie varð hins vegar vinstrisinnaðri menningu BBC að bráð,“ segir WSJ og einnig: „Staðreyndin er sú að þegar opinbert fyrirtæki af einhverju tagi hefur verið stofnað er nánast ómögulegt fyrir íhaldsmann að stjórna því.“ Allt þetta þekkjum við héðan vegna umræðna um ríkisútvarpið (RÚV).