24.12.2021 10:05

Barnið í alheiminum – Gleðileg jól!

Nú um þessi jól verður enn stigið nýtt skref til rannsóknar himnanna með nýjum sjónauka. James Webb geimsjónaukanum verður skotið á loft frá Frönsku Gíneu þegar veður leyfir.

Á jólum lítum við kristnir menn með þakklæti og von til barnsins í jötunni í Betlehem. Í jólaguðspjalli Lúkasar segir frá gleðinni sem fæðingunni fylgdi á jörðu sem á himni því að „í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum

og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“

Í Matteusarguðspjalli (2. 1–2) segir:

„Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu?““

Frásagnir þessar eru okkur vel kunnar. Þar tengjast himinn og jörð. Maðurinn er á milli himins og jarðar. Jarðbundinn frelsarinn er fæddur í jötu en leiðsögn um mikilleika hans kemur af himni. Himneskar hersveitir birtast og stjarna vísar dularfullu vitringunum úr austri veginn til barnsins sem þeir töldu nýfæddan konung Gyðinga

Stjarnan annars vegar og konungur Gyðinga hins vegar, enn á ný himinn og jörð, vísindi og vald. Heródes konungur óttaðist svo þessa skoðun vitringanna að hann lét drepa drengi í Betlehem í von um að geta tryggt völd sín þrátt fyrir fæðingu barnsins.

0IMG_04339Myndin er tekin klukkan 11.18 á Þorláksmessu, fimmtudaginn 23. desember 2021, við Perluna á Öskjuhlíð. Hún minnir okkur á ljósið sem kviknaði í Betlehem og að enn þann dag í dag erum við eins og börn milli himins og jarðar án þess að þekkja alheiminn.

Valdið óttast vísindin enn þann dag í dag. Um þessar mundir láta kínversk stjórnvöld greipar sópa um háskólann í Hong Kong til að afmá allt sem er til minningar um fjöldamorð þeirra á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Óttinn við að ungt háskólafólk sé minnt á ódæðisverkin er ógnvekjandi vitnisburður um hrædda stjórnendur sem eru til alls vísir í þágu eigin valda.

Á 17. öld endurbætti ítalski vísindamaðurinn Galíleó sjónaukann og rannsakaði fyrstur manna stjarnfræðileg fyrirbæri. Hann studdi kenningar Kópernikusar um að reikistjörnurnar gengju umhverfis sólina. Fyrir þetta setti kirkjan hann í stofufangelsi.

Nú um þessi jól verður enn stigið nýtt skref til rannsóknar himnanna með nýjum sjónauka. James Webb geimsjónaukanum verður skotið á loft frá Frönsku Gíneu þegar veður leyfir. Sjónaukinn kostar 10 milljarða dollara og tekur við af Hubble geimsjónaukanum.

Með Webb sjónaukanum er ætlunin að rýna dýpra inn í alheiminn – hverfa meira en 13,5 milljarða ára aftur í tímann. Vísindamenn vona að með sjónaukanum geti þeir greint hvort lofthjúpur sé umhverfis einhverjar stjörnur, hann gæti verið vísbending um líf annars staðar í alheiminum.

Erum við sem á Jörðinni búum virkilega einu lifandi verurnar í alheiminum? Maðurinn leitar ætíð staðfestingar á hvort svo sé í raun og veru.

Jesúbarnið skapaði okkur kristnum mönnum nýja vídd og lagði grunn að bestu samfélagsgerð eina mannsins sem við þekkjum í alheiminum. Vegna barnsins og þess sem það gaf er ástæða til að gleðjast.

Gleðileg jól!