24.10.2019 9:56

Baráttan gegn ofríki innan Eflingar

Áskorun send Starfsgreinasambandi Íslands vegna ofríkis gegn starfsmönnum Eflingar.

Þing Starfsgreinasambands Íslands hefst í dag (24. október) og þangað hafa fjórir starfsmenn Eflingar stéttarfélags sem eru í veikindaleyfi eða hafa verið reknir á brott frá félaginu sent áskorun um að tekið verði á málum starfsmanna Eflingar.

Frá þessu er skýrt í Morgunblaðinu í dag og þar er birt áskorunin sem fjórir rita undir, Anna Lisa Terrazas, Elín Hanna Kjartansdóttir, Kristjana Valgeirsdóttir og Þráinn Hallgrímsson. Þau hafa „verið dyggir starfsmenn Eflingar-stéttarfélags og eldri félaga og verið í ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna árum og áratugum saman“ og spyrja hver hefði trúað því að á lokaárum sínum yrðu þau hrakin úr þessum störfum „með eineltistilburðum og ólíðandi framkomu í veikindaleyfi eða bolað úr starfi sínu“.

Þau segja einnig:

„Hvergi á Íslandi eða í nálægum ríkjum myndi framkoma af þessu tagi líðast hjá fyrirtækjum, hvað þá öðru stærsta stéttarfélagi landsins. Að ráðast á starfsmenn sína opinberlega með tilhæfulausum ásökunum er vítavert af aðila sem á að vera fyrirmynd annarra í framkomu við starfsmenn. Barátta okkar starfsmanna er því mannréttindabarátta fyrir alla félagsmenn.“

1166820Forystumenn Eflingar: Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður. (Mynd Hari/mbl.is)

Ekki er að undra að mikill þungi sé í málflutningi þessa fólks miðað við ofríkið sem því hefur verið sýnt af Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, og Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra félagsins.

Þau komust til valda í Eflingu stéttarfélagi með því að flytja óhróður um þá sem stjórnað höfðu félaginu. Eftir valdatökuna fylgdu þau illmælgi sinni eftir með því að reka gamalreyndan skrifstofustjóra og hafa að engu ráðgjöf frá fráfarandi formanni sem bjó yfir 40 ára reynslu af störfum í félaginu og síðan losuðu þau sig við sviðsstjóra kjaramála. Með þessu lykilfólki var gífurlega mikilli þekkingu kastað fyrir borð. Síðan voru fjármálastjóri og bókari látnir fara og þá var komið að einstökum starfsmönnum.

Efling hefur aðsetur í ASÍ-húsinu og herma fréttir þaðan að ofríkisárátta stjórnenda Eflingar hvíli eins og mara á þeim sem í húsinu starfa. Ef til vill endurspeglar nýr tónn i afstöðu ASÍ til ýmissa mála sósíalísk öfgaviðhorf þessa fólks. Má í því sambandi meðal annars nefna umsögn ASÍ um þriðja orkupakkann sem hafði að geyma allt önnur viðhorf en ASÍ hafði áður til EES-samstarfsins.

Vefsíðan Stundin gengur erinda Sólveigar Önnu og Viðars eins og birtist nýlega í tilraun Freys Rögnvaldssonar blaðamanns til að sverta mannorð fyrrverandi fjármálastjóra Eflingar. Það er ekki nóg með að einstaklingar séu hraktir frá störfum heldur eru þeir síðan hundeltir með því að afflytja þeim í óhag upplýsingar sem miðlað er til vinveittra blaðamanna úr bókhaldi Eflingar.

Um þetta segir í áskorun fjórmenningana til Starfsgreinasambandsins:

„Nú síðast hefur stéttarfélagið dreift ósannindum um starfsmennina með því að bera á þá í fjölmiðlum ósannar ávirðingar. Ósannindi um hlutdeild í meintum brotum á ávöxtun fjármuna og síðan fréttir frá Eflingu þar sem fjármálastjóri er borinn þungum sökum í máli sem augljóslega er ekki á hennar ábyrgð, fylla nú mælinn.“

Í ljós kemur hvort Starfsgreinasambandið kýs að sópa þessari áskorun undir teppið eða tekur til varna fyrir þá sem að henni standa. Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar sjá sína sæng uppreidda af þeim Sólveigu Önnu og Viðari. Lúta þeir ofríkinu eðs rísa gegn því?