27.9.2025 10:28

Baráttan gegn bílnum

Aukið umferðaröngþveiti við þessi fjölförnu gatnamót er greinilega einn af þessum kostum, markmiðið er að fæla fólk úr bílum sínum í almenningsvagna og hlaða undir borgarlínuna.

Morgunblaðið hefur undanfarið sagt frá vandræðum sem voru fyrirsjáanleg vegna breytinga á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls í Reykjavík. Vitað hafi verið að breytingarnar myndu valda auknum umferðartöfum þegar Reykjavíkurborg ákvað að ráðast í framkvæmdirnar.

Það hafi komið fram í greiningu verkfræðistofunnar Cowi að breytingarnar myndu skapa 240 metra biðröð við gatnamótin síðdegis á virkum dögum og 80 metra biðraðir á virkum morgnum.

Í blaðinu í dag (27. september) er rætt við Guðbjörgu Lilju Erlendsdóttur, samgöngustjóra Reykjavíkur, sem er ósammála því að verið sé að þrengja umferðaræðar. Engin sviðsmynd frá Cowi hafi verið valin heldur tvær aðrar. Þá segir Guðbjörg Lilja:

„Við höfum verið að bæta aðstæður mjög víða. Vandamálið er að bílum fjölgar stöðugt og til þess að vinna gegn því þurfum við aðra valkosti, og að því er unnið.“

Þarna kemur fram það sjónarmið að þrenging umferðaræða fyrir bíla sé ekki vandamálið heldur felist vandinn í því að bílum fjölgi. Það sé unnið gegn fjölguninni með öðrum valkostum.

1599041Gatnamótin við Bæjarháls og Höfðabakka í Reykjavík. Markmiðið er að fæla fólk úr bílum á hjól eða í almenningsvagna (mynd: Morgunblaðið/Eggert).

Aukið umferðaröngþveiti við þessi fjölförnu gatnamót er greinilega einn af þessum kostum, markmiðið er að fæla fólk úr bílum sínum í almenningsvagna og hlaða undir borgarlínuna.

Nýlega barst mér boð á fund í Borgartúni. Í boðsbréfinu var þessi viðvörun: „Athugið að lítið er um bílastæði við [fundarstað] og þeir sem geta eru hvattir til að koma gangandi, hjólandi eða samferða. Þeim sem koma á bíl er bent á bílakjallarann í Höfðatorgi og bílastæði við Höfða.“

Viðvörunin minnir á annan kost sem borgaryfirvöld hafa valið til að fæla fólk frá að nota bíla, það er að takmarka bílastæði.

Þar koma skipulagsreglur um bílastæði til sögunnar. Vegna námsmannaíbúða er eitt stæði fyrir hverjar fimm þriggja herbergja íbúðir og tvö stæði fyrir fimm fjögurra herbergja eða stærri íbúðir. Bílastæðavandinn við háskóla og framhaldsskóla sýnir hve lítið mið af veruleikanum þessar reglur taka.

Í nýju hverfi á Keldnalandi snúast hugmyndir borgarinnar um að 2.230 bílastæði eigi að duga fyrir 12 þúsund manns í 5.800 heimilum og sex þúsund manns að störfum.

Fleygt varð á sínum þegar hugmyndafræðingur meirihlutans í skipulagsmálum, Hjálmar Sveinsson, sagði að ástæðulaust væri að greiða fyrir umferð með fjölgun akreina, bílunum myndi bara fjölga.

Menn hlógu að þessu þá. Ökumenn ættu hins vegar að hugga sig við það í biðröðinni á Bæjarhálsi eða hvar sem þeir rekast á skipulagðar hindranir á leið sinni um borgina að þetta sé allt með ráðum gert svo að þeir hætti að nota bílana sína.

Vinstrisinnar eru haldnir þeirri trú að þeir viti betur hvað öðrum sé fyrir bestu. Líklega verður Hjálmar Sveinsson næsta borgarstjóraefni þeirra.