24.7.2018 10:40

Bannon skerpir víglínur í Evrópu

Pólitísk átök taka á sig nýja mynd vegna erlendrar íhlutunar. Viðkvæmnin gagnvart skoðunum og afskiptum útlendinga er mikil jafnt í stórum ríkjum sem smáum.

Á dönsku vefsíðunni Altinget.dk segir þriðjudaginn 24. júlí að Steve Bannon ný samtök eða hugveita hans Hreyfingin (The Movement) sem stofnuð er til höfuðs ESB njóti ekki stuðnings danskra stjórnmálamanna.

Í Þýskalandi hafa forystumenn hefðbundnu stjórnmálaflokkanna snúist harkalega gegn því sem Bannon boðaði föstudaginn 20. júlí þegar hann sagðist ætla að beita sér fyrir samstarfi evrópskra stjórnmálaflokka til að knésetja ESB ( sjá hér ).

Viðbrögðin láta ekki á sér standa en nú hefst undirbúningur í öllum aðildarríkjum ESB við val á frambjóðendum til þings ESB, kosningarnar verða 23. til 26. maí 2019.

Á dönsku vefsíðunni segir að meira að segja Danski þjóðarflokkurinn (flokkur Piu Kjærsgaard) hafni afdráttarlaust samstarfi við Bannon. Þar á bæ telji menn sig ekki þurfa neina aðstoð Bandaríkjamanna eða annarra Evrópumanna til að sanna fyrir Dönum að þjóðarflokkurinn sé besti gæsluflokkur danskra hagsmuna á ESB-þinginu.

Steve Bannon og Nigel Farage, ESB-þingmaðurinn sem barðist gegn aðild Breta að ESB, hafa átt náið samstarf. Farage var gestur hjá Donald Trump dagana eftir að hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2016 með dyggum stuðningi Bannons.

Farage og aðrir breskir þingmenn yfirgefa ESB í lok mars 2019. Gamall samstarfsmaður Farage stjórnar höfuðstöðvum Hreyfingar Bannons sem hafa verið opnaðar í Brussel.

Í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 börðust Rússar á bakvið tjöldin og í netheimum gegn Hillary Clinton, andstæðingi Trumps. Síðan hafa afskipti þeirra verið eitt heitasta deilumál á bandarískum stjórnmálavettvangi.

Í Evrópu búa menn sig undir að Rússar blandi sér í kosningabaráttuna fyrri hluta árs 2019. Aðrir útlendingar frá Bandaríkjunum og Bretlandi ætla ekki heldur að láta sitt eftir liggja.

Pólitísk átök taka á sig nýja mynd vegna erlendrar íhlutunar. Viðkvæmnin gagnvart skoðunum og afskiptum útlendinga er mikil jafnt í stórum ríkjum sem smáum. Nauðsynlegt er þó að hafa þrek til að greina á milli boðinna og óboðinna gesta, sýnilegra og ósýnilegra.