10.1.2018 10:15

Bannon missir, völd, áhrif og fé

Fréttaskýrendur segja ris og fall Bannons einstakt í nútímasögu bandarískra stjórnmála – að maður hafi náð svo langt og tapað svo miklu á skömmum tíma.

Bókin Fire and Fury eftir blaðamanninn Micahel Wolff um ástandið í Hvíta húsinu í forsetatíð Donalds Trumps snýst í raun meira um Stephen K. Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafa eða hugmyndasmið Trumps, en forsetann sjálfan.

Ástandið innan Hvíta hússins sem kenna má við eld og brennistein eins og gert með heiti bókarinnar mótast af baráttu einstakra hópa í húsinu um athygli Trumps – hverjum tekst að fá hann til að fallast á sjónarmið sín eða leikfléttu í endalausri baráttu um völd og áhrif.

Bannon var höfuðandstæðingur Ivönku forsetadóttur og Jareds Kushners, eiginmanns hennar, sem Trump tók með sér í Hvíta húsið sem sérlega ráðgjafa sína auk þess að trúa Jared fyrir Mið-Austurlöndum án þess að hann hefði nokkra reynslu af alþjóðastjórnmálum. Látið er að því liggja í bókinni að Jared njóti handleiðslu Henrys Kissingers, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem nú er hálf-tíræður.

Eftir útkomu bókarinnar hefur athygli mjög beinst að því sem haft er eftir Bannon um andlegt heilbrigði Trumps forseta og fund sonar hans með Rússum sumarið 2016 sem Bannon kennir við landráð. Í bókinni segir að Bannon hafi bjargað kosningabaráttu Trumps í ágúst 2016 þegar allt var í kaldakoli hjá frambjóðandanum auk þess að vera sá eini í kosningastjórninni sem trúði á sigur Trumps.

Bókin og umræður vegna hennar haf leitt til vinslita milli þessara samherja og segir Trump að Bannon hafi „misst vitið“ þegar hann missti vinnuna í Hvíta húsinu. Nú hefur Bannon einnig misst áhrifastöðu sína sem starfandi stjórnarformaður Breibart News, róttækrar þjóðernislegrar vefsíðu.

Bannon var vikið úr stjórnarformennskunni þriðjudaginn 9. janúar af ótta við að auðmenn sem styrkja útgáfuna féllu frá stuðningi sínum. Skiptir þar mestu afstaða Rebekah Mercer sem ásamt föður sínum hefur lagt mikla fjármuni með Bannon og baráttu hans. Hafa feðginin nú sagt skilið við hann. Wolff rekur horn í síðu þeirra í bók sinni af augljósri óvild.

Fréttaskýrendur segja ris og fall Bannons einstakt í nútímasögu bandarískra stjórnmála – að maður hafi náð svo langt og tapað svo miklu á skömmum tíma. Bannon hafði í hótunum innan flokks repúblíkana eftir að hann hvarf úr Hvíta húsinu og sagðist ætla að berjast gegn þingmönnum sem eru honum ekki að skapi. Er talið að Mercer-feðginin og fleiri styrktaraðilar hafi ekki viljað láta draga sig inn í slíkt stríð og þess vegna látið af stuðningi sínum við Bannon.

Þá er einnig sagt að starfsmenn við Breibart-vefsíðuna telji að ofmetnaður rugli dómgreind Bannons. Veruleikaskynið sé brenglað og hann geri sér ekki grein fyrir hve illa hann hafi farið með eigið orðspor.

Allt gerist þetta á innan við viku frá því að bók Wolffs fór í sölu föstudaginn 5. janúar. Þótt Bannon sé úr sögunni sem áhrifamaður eru ekki öll kurl komin til grafar vegna þess sem segir í bók Wolffs. Séu lýsingarnar réttar er enn einu sinni þörf á uppstokkun innan forsetaembættisins. Innan Hvíta hússins skapast þó ekki jafnvægi á meðan forsetafjölskyldan hefur þau ítök sem lýst er.

Svo virðist sem tekist hafi að skilja á milli alls þessa gauragangs í kringum Trump og töku ákvarðana um mikilvæg stjórnarmálefni. Þar ræður mestu að utan innsta hrings forsetans, þar sem Bannon og forsetafjölskyldan var, er hópur embættismanna sem hafa þræði í hendi sér. Fyrsta boðorð þeirra er að bera jafnan lof á forsetann og gæta þess að skyggja aldrei á hann.