20.11.2023 12:13

Bannfæring á hátíð og í háskóla

Það er mikil þverstæða að hafna þátttöku í bókmenntahátíð vegna þess sem rithöfundar segja og skrifa. 

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (20. nóv) er það kallað „sniðganga“ þegar sagt er frá áskorun sem birtist á dögunum um að fólk héldi sig fjarri atburði á bókmenntahátíðinni Iceland Noir sem haldin hefur verið árlega um nokkurt skeið að frumkvæði rithöfundanna Yrsu Sigurðardóttur og Ragnars Jónassonar.

Cce53c23-3210-4c8d-90e6-e8dbeecf9ceaHillary Clinton á sviðinu í Eldborg sunnudaginn 19. nóvember 2023 - á bókmenntahátíðinni Iceland Noir (mynd: mbl/Eyþór).

Hátíðin hefur vaxið ár frá ári og meðal gesta nú var Hillary Clinton, heimsfræg vegna þátttöku sinnar í bandarískum stjórnmálum. Þeir sem hvöttu til þess að fólk færi ekki á hátíðina gerðu það vegna stjórnmálaskoðana Clinton og einaðrar fordæmingar hennar á Hamas-hryðjuverkunum auk stuðnings hennar við Ísraela.

Það er mikil þverstæða að hafna þátttöku í bókmenntahátíð vegna þess sem rithöfundar segja og skrifa. Það er alltof veikt að orðið kveðið þegar slíkt er kennt við sniðgöngu, hér er einfaldlega um tilraun til ritskoðunar að ræða. Afstaðan er á næsta leiti við bókabrennur.

Hér skal enn á ný rifjað upp sem Sema Erla Serdar, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og fyrrv. formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, sagði á FB-síðu sinni laugardaginn 12. maí 2018:

„Með sigri Ísraels í Eurovision hefur Evrópa enn og aftur lagt blessun sína yfir fjöldamorð, landrán, hernám, pyntingar og ómannúðlega og ógeðfellda meðferð ísraelska hersins og ísraelskra stjórnvalda á saklausum palestínskum börnum, konum og mönnum. Þetta er ógeðslegt. Ógeðslegt.“

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður segir í grein í Morgunblaðinu í dag að Sema Erla Serdaroglu skrifi fyrst undir yfirlýsingu starfsfólks Háskóla Íslands (338 nöfn) til stuðnings Palestínu þar sem lýst er stuðningi við hryðjuverk Hamas. Yfirlýsingin er gegn „ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði“. Hún er með öðrum orðum harðorðari útgáfa á skoðun Semu Erlu frá 12. maí 2018. Hún er reist á megnri óvild eða hatri í garð Ísraels hvort sem um er að ræða sigur í söngvakeppni eða stríðsaðgerðir.

Yfirlýsing starfsfólks Háskóla Íslands er einnig í anda samþykktar meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur þegar hann kvaddi Björk Vilhelmsdóttur (Samfylkingu) með því að samþykkja viðskiptabann á vörur frá Ísrael. Í yfirlýsingu háskólafólksins segir:

„Sem akademískt starfsfólk munum við sniðganga akademískar stofnanir í Ísrael og afþakka samstarf við ísraelskar menntastofnanir og akademískt starfsfólk.“

Þegar háskólafólkið notar sagnorðið „sniðganga“ á það við útilokun eða bannfæringu á Ísraelum og samskiptum við þá.

Að hatrið á Ísrael vegi að bókmenntahátíð eða friði í háskólasamfélagi er ólíðandi.

Bókmenntahátíðin heppnaðist að sjálfsögðu vel og þar verður vonandi ekki látið undan bannfæringarsinnum. Stjórnendur Háskóla Íslands geta ekki setið hjá þegar nafn stofnunar þeirra er misnotað í anda gyðingahaturs.