Banksy í Borodjanka
Banksy er dulnefni listamanns frá Bristol á Englandi. Verkin seljast fyrir milljónir punda. Hann britir myndir af Úkraínu-verki sínu á Instagram
Breski vegglistamaðurinn Banksy hefur undanfarna birt þrjár myndir af nýjasta verki sínu, á vegg húsarústa í Úkraínu. Þar má sjá íþróttakonu standa á höndum.
Banksy er dulnefni listamanns frá Bristol á Englandi. Verkin seljast fyrir milljónir punda. Hann birtir myndir af Úkraínu-verki sínu á Instagram. Konan sem stendur á höndum er í rústum í Borodjanka, bæ fyrir norðan Kyív. Rússar jöfnuðu hluta bæjarins við jörðu áður en þeir hertóku hann. Nú er unnið að endurreisn hans.
Eftir að vegglistaverk birtust á ýmsum stöðum í Úkraínu, meðal annars í Kyív, grunaði marga að Banksy væri þar á ferð.
Í Borodjanka er önnur veggmynd sem sýnir barn sveifla júdómanni til jarðar, líkist hann Vladimir Pútin sem er kunnur júdó-iðkandi. Ekki er staðfest að þessi mynd sé eftir Banksy.
Þá sýnir þriðja veggmyndin börn vega salt á skriðdrekagildru.
Rússneskir hermenn sóttu inn í Borodjanka frá Belarús í upphafi innrásarinnar í febrúar 2022. Síðan fóru þeir til Butsja, Irpin og Hostomel. Þeir voru hraktir til baka frá þessum slóðum í apríl.
Eftir frelsun bæjanna hafa fundist þar fjöldagrafir almennra borgara sem voru pyntaðir og limlestir áður en þeir voru drepnir.
Í Borodjanka notuðu Rússar klasasprengjur til að valda sem mestu tjóni og drepa sem flesta.
Bansky hefur 11,1 milljón fylgjenda á Instagram. Hann birti myndina föstudaginn 11. nóvember á síðu sinni aðeins með þessum texta: Borodjanka, Úkraínu.
Að morgni laugardags 12. nóvember höfðu meira en 1,3 milljónir sett like við myndina og meira en 14.000 látið í ljós skoðun sína.
Hér tala myndirnar, efst er íþróttakonan, næst börnin á stálgildrunni og loks júdó-barnið .