27.11.2025 12:15

Bandamenn gegn EES

 Í eðli sínu er EES-samningurinn umgjörð um samstarf sem þróast í ljósi breyttra aðstæðna vegna eigin framfara eða ytra áreitis. Um það leika meiri pólitískir sviptimyndar nú en áður.

Í umræðum um EES-samninginn hefur skoðunum verið hreyft um að samningurinn hafi verið okkur til lítilla hagsbóta, að fríverslun við Evrópu hefði hvort sem er verið tryggð með EFTA-samningnum, að þjónustu- og fjármagnsfrelsi hafi reynst skaðlegt og að EES hafi næsta stjórnlaust breyst í pólitískt samstarf við ESB.

Umræðurnar núna má rekja til þess að ESB lagði verndartoll á hluta útflutnings á járnblendi héðan. Sumir halda því fram að með þessu hafi verið brotið gegn EES-samningnum. Aðrir draga það í efa. Allir gagnrýnendur ákvörðunar ESB eru sammála um að hún sé pólitískt röng og raunar óþörf. Virðist augljóst að ákvörðunina má rekja til togstreitu milli ríkja innan ESB en ekki til ásetnings um að skaða stjórnmálaleg samskipti við Ísland og Noreg þó að það sé raunin og kannski alvarlegra til langframa en viðskiptalega tjónið.

Fullyrðingar um að aðild að EFTA-samningnum hefði tryggt allt það sem EES-samningurinn gerir varðandi vöruflæði er rangt. EFTA-samningurinn fól í sér tollfrelsi á iðnaðarvörum en þar er ekki að finna kröfur um sameiginlegar upprunareglur, sameiginlegar tæknikröfur, neytendavernd, fjármálaþjónustu, gagnavernd eða þjónustu- og fólksflutningsfrelsi. EFTA-ríkin vildu EES-samninginn á sínum tíma til að tryggja fyrirtækjum raunverulegan aðgang að innri markaði.

Það er rangt að halda því fram að þjónustufrelsið í EES-samningnum útiloki innlend fyrirtæki frá framkvæmdum. Innlend fyrirtæki hafa fullt svigrúm til þátttöku í útboðum, bæði heima og erlendis. Í mörgum tilvikum hafa íslensk fyrirtæki náð að hasla sér völl á norrænum mörkuðum einmitt vegna þjónustufrelsisins. Auk þess er samkeppni í opinberum framkvæmdum almennt til þess fallin að lækka kostnað hins opinbera, ekki hækka hann.

Eea-flags-300_1764245670519

Varðandi fólksflutninga er rétt að innflytjendur komu til landsins áður en EES tók gildi, en frjáls för fólks hefur breytt forsendum íslensks atvinnulífs á vinnumarkaði til muna, jafnt hvað varðar menntað starfsfólk og sérhæfða iðnaðarmenn. Flest EES-ríki telja þetta einn helsta ávinning samstarfsins. Íslendingar kunna sjálfir að meta þetta frelsi til starfa og búsetu innan EES-svæðisins.

Þegar sagt er að EES-fjármagnsfrelsið hafi valdið bankahruninu 2008 styðst það ekki við gögn. Öll ríki EES-samstarfsins störfuðu samkvæmt sömu reglum árið 2008 en bankakerfið hrundi aðeins hér. Stoðir kerfisins voru of veikar til að þola álagið vegna skarprar alþjóðlegrar niðursveiflu á peningamörkuðum.

Í eðli sínu er EES-samningurinn umgjörð um samstarf sem þróast í ljósi breyttra aðstæðna vegna eigin framfara eða ytra áreitis. Um það leika meiri pólitískir sviptimyndar nú en áður og þeir sameinast í gagnrýni á samstarfið sem vilja það feigt í nafni tvíhliða viðskiptasamninga eða til að rökstyðja aðild að Evrópusambandinu.

Í grein í Morgunblaðinu í dag (27. nóv.) gælir Dagur B. Eggertsson, ákafasti talsmaður ESB-aðildar í þingflokki Samfylkingarinnar, við að meðal þingmanna Sjálfstæðismanna finni hann andstæðinga við EES-samninginn sem hlaupi þá undir bagga með sér og öðrum sem tala samninginn niður. Dagur B. segir:

„Hvernig er hag okkar og íslensks atvinnulífs best borgið í bráð og lengd? Við þurfum að ræða fulla aðild að ESB.“

Hvatningarorðin um að ræða fulla aðild að ESB eru ætluð Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, sem hugnast ekki ESB-aðildarbaráttan sem í þeim birtist.