8.8.2018 18:00

Bamberg – Hollendingurinn fljúgandi – Nürnberg.

Lokadagar í Bæjaralandi,

Uppfærslan á Hollendingnum fljúgandi eftir Richard Wagner í Festspielhaus í Bayreuth síðdegis þriðjudaginn 7. ágúst var á þann veg að hún var of fjarlæg uppruna verksins til að vera trúverðug. Flutningurinn var einstakur en umgjörðin á skjön við væntingar. Sagan gerist vegna óveðurs á hafi úti en hér var hún færð inn í heim fjármála- og viðskipta.

Mánudaginn 6. ágúst brugðum við okkur til nágrannaborgarinnar Bamberg. Miðborgin þar er einstaklega vel varðveitt og var gaman að skoða hana. Við nýttum okkur í fyrsta skipti þjónustu fyrirtækisins Flixbus sem er netfyrirtæki með langferðabíla og ótrúlegt leiðanet um Evrópu og víðar í heiminum.

Þegar bíllinn lagði af stað frá Bayreuth var hann á áætlun, ferðin tekur 50 til 60 mínútur. Þá hafði ég ekki sett app fyrirtækisins í símann minn en bílstjórinn sagði að með því að nota það mætti spara stórfé og unnt væri að bóka sig í bíl og kaupa miða með 15 mínútna fyrirvara. Ég náði mér í appið þegar ég náiði netsambandi úti á götu í Bamberg og bókaði ferðina til baka í gegnum það og sparaði með því 15 evrur!

Bíllinn á leið frá Bamberg til Bayreuth var langt að kominn og var 1 klst. 35 mínútna seinkun á honum en um það fékk ég tölvupóst og gat fylgst með bílnum á korti í appinu, væri ég nettengdur. Á vefsíðu félagsins segir að í 90% tilvika haldi bílarnir áætlun. Eina sem þarf að vita er hvar staurinn frá Flexibus er og standa við hann á þeim tíma þegar bíllinn á að koma þangað. Sýna bókunina í símanum og ganga um borð.

Í dag (8. ágúst) er heimferðardagur. Í fyrsta sinn fljúgum við þýska lággjaldaflugfélaginu Germaniu sem heldur frá Nürnberg til Keflavíkur kl. 23.15 að staðartíma.

Ívið lengra er til Nürnberg frá Bayreuth en til Bamberg en að þessu sinni tókum við lest til aðalbrautarstöðvarinnar í Nürnberg, ferðin tekur um 60 mínútur. Hjá þýsku lestunum er unnt að kaupa dagkort sem gildir fyrir tvo jafnt í lestir og jarðlestir. Hagkvæmara að kaupa dagkortið en tvo einstaka miða. Um allt þetta er unnt að fræðast á netinu.

Notuðum við daginn til að skoða gömlu miðborgina í Nürnberg, þar sem stórar, gamlar kirkju setja svip á staðinn. Einnig fórum við í skoðunarferð í dómhöllina þar sem er finna réttarsal 600 sem hýsti Nürnberg-stríðsréttarhöldin árið 1945.

Skoða má salinn en einnig stórfróðlega og háþróaða sýningu um réttarhöldin og raunar stríðið í heild. Til að kynnast því öllu þarf lengri tíma en við höfðum.

Þetta er skrifað á flugvellinum í Nürnberg þar sem allt er nýtt og vel úr garði gert eins og tengingar frá brautarstöðinni út á flugvöllinn með einni af jarðlestum borgarinnar og tekur ferðin út á völlinn aðeins 12 mínútur.Img_6855

Séð yfir réttarsal 600 í Nürnberg eins og hann er í dag.

Img_6849 Úr einni af kirkjunum í Nûrnberg.

Img_6842Þessi ágæti organisti lék sálmalög fyrir þá sem skoðuðu kirkjuna,

Img_6821Óperugestir í Festspielhaus búa sig undir að hlusta á Hollendinginn fljúgandi sem var sýndur án hlés í tvo og hálfan tíma.