12.8.2019 10:16

Baldvin Tryggvason - minning

Minningar af samstarfi okkar eru góðar og kynntist ég því þá vel menningarmanninum Baldvini og hve mjög hann unni fögrum listum.

Í dag (12. ágúst) er Baldvin Tryggvason jarðsunginn. Hann andaðist í hárri elli, 93 ára, 29. júlí.

Að loknu laganámi starfaði ég um tíma sem útgáfustjóri hjá Almenna bókafélaginu í tíð Baldvins sem framkvæmdastjóra (1960 til 1976). Minningar af samstarfi okkar eru góðar og kynntist ég því þá vel menningarmanninum Baldvini og hve mjög hann unni fögrum listum. Hann átti einstaklega auðvelt með öll samskipti við skáld og rithöfunda. Kynni af mörgum þeirra á þessum árum eru ógleymanleg. Þar ber Tómas Guðmundsson skáld hæst, hann var listrænn ráðgjafi við útgáfuna.

Þeir voru nánir samstarfsmenn Baldvin og Bjarni, faðir minn. Eftir sviplegt fráfall foreldra minna og systursonar ákvað Almenna bókafélagið að gefa út sem gjafabók til félagsmanna sinna í desember 1970 ræðu sem faðir minn flutti, 35 ára að aldri, á Þingvöllum 18. júní 1943. Gjafabókin heitir Lýðveldi á Íslandi.

Screenshot_2019-08-12-Ljosmyndir-1935-1970-myndaalbum-1-Lj_smyndir_1935-1970-_myndaalb_m_1-pdfMyndin er tekin í kvöldverði á sjöunda áratugnum að loknum aðalfundi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Sr. Bjarni Jónsson vígslubiskup flytur ávarp, Bjarni Benediktsson fre og að baki honum til vinstri á myndinni er Baldvin Tryggvason sem þá sat í stjórn sparisjóðsins en varð stjórnandi hans árið 1976.

Baldvin ritaði þar formálsorð. Hann rifjar upp hlut föður míns við stofnun Almenna bókafélagsins og segir meðal annars: „Þrátt fyrir langan og erilsaman vinnudag, gaf hann sér jafnan tóm til að ræða málefni félagsins og bar hag þess í einu og öllu fyrir brjósti.“

Í þessum orðum endurspeglast náið samstarf þeirra á vettvangi Almenna bókafélagsins. Áður en Baldvin réðst til starfa þar hafði hann verið framkvæmdastjóri fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík (1956 til 1960). Traustið sem hann ávann sér þar leiddi til forystu hans í Almenna bókafélaginu.

Í fyrrgreindum formálsorðum kemst Baldvin þannig að orði:

„Þá er enn vert að hafa í huga, að allan sinn frama sótti dr. Bjarni Benediktsson í eigin hæfileika, árvekni og dugnað. Hann gerði alla tíð strangar kröfur til sjálfs sín og dró enga dul á, að hann ætlaðist til hins sama af öðrum. Hjá honum skipti mestu máli að duga. Hver og einn varð að duga í sínu starfi, smáu eða stóru, og það var jafnframt sannfæring hans, að sá einn mætti duga, sem þyrði og vildi vinna verk sitt af drengskap og heilindum.“

Á kveðjustund endurbirti ég þessi fögru orð Baldvins með þakklæti. Orðin eiga við um hann sjálfan.

Blessuð sé minning Baldvins Tryggvasonar.