10.10.2024 9:51

Baktjaldamakk í Efstaleiti

Stefán skuldar auðvitað engum skýringar á því hvers vegna hann boðaði brotthvarf sitt fyrir ári en vill nú sitja áfram. Var hann hvattur til þess? 

Á ruv.is segir að morgni fimmtudagsins 10. október:

„Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur greint stjórn Ríkisútvarpsins frá því að hann vilji gegna starfinu áfram þegar núverandi ráðningartímabili lýkur á næsta ári. Þetta kemur fram í skriflegum svörum Stefáns til fréttastofu en Morgunblaðið greindi fyrst frá.“

Þetta er frétt vegna þess að í fyrra, 1. nóvember 2023, greindi Stefán frá því á Bylgjunni að hann ætlaði ekki að vera lengur en fimm ár útvarpsstjóri. Stjórn ríkisútvarpsins (RÚV) réð hann til fimm ára úr hópi 41 umsækjanda í janúar 2020.

Það hefur einkennt ár Stefáns hjá ríkisútvarpinu að þar verða breytingar á starfsmannahaldi án mikilla umræðna, á þetta ekki síst við um fréttastofuna.

Stjórnunarhættir Stefáns birtast helst í skriflegum fyrirmælum. Nýlega þegar fréttastofan hljóp á sig vegna andlátsfréttar var gagnrýni svarað á þann veg að fréttastjóranum sem bar ábyrgð á frumhlaupinu var falið að semja viðmið við gerð andlátsfrétta.

Traust Stefáns í garð fréttastofunnar sem lýtur æðsta forræði hans birtist nú í því að hann svarar skriflega fyrirspurn frá fréttamanni um ákvörðun sína um vilja til að sitja áfram. Hann vill líklega komast hjá frekari spurningum, meðal annars um hvað olli sinnaskiptunum.

Screenshot-2024-10-10-at-09.50.13

Skjáskot af ruv.is

Stefán skuldar auðvitað engum skýringar á því hvers vegna hann boðaði brotthvarf sitt fyrir ári en vill nú sitja áfram. Var hann hvattur til þess? Af stjórn? Af starfsmönnum? Eða með bænarskrá frá skattgreiðendum sem standa undir rekstri RÚV?

Eins og verða vill hér í fásinninu gat yfirlýsing Stefáns um væntanlegt brotthvarf sitt af sér alls kyns sögusagnir. Því var til dæmis fleygt manna á meðal að Katrín Jakobsdóttir, fyrrv. forsætisráðherra, yrði næsti útvarpsstjóri. Auðvitað er það ekki útilokað, stjórn RÚV þarf ekki að taka Stefán á orðinu heldur getur ákveðið að auglýsa stöðuna. Stefán myndi líta á það sem vantraust á sig og láta hjá líða að senda inn umsókn.

Það getur sem sagt allt gerst enn á bak við tjöldin á RÚV. Baktjaldamakk er háþróað í Efstaleitinu.