Báknið burt - taka tvö
Löngum hefur verið gagnrýnt hve Sjálfstæðisflokknum gengur illa að minnka báknið. Ein ástæðan er samvinna við báknflokka í ríkisstjórn. Nú liggja fyrir róttækar hugmyndir almennigs um báknið burt - hvað gerir ríkisstjórnin?
Í frétt á vef stjórnarráðsins fimmtudaginn 30. janúar var birt samantekt um tillögur, hugmyndir og sjónarmið sem bárust í verkefninu Verum hagsýn í rekstri ríkisins. Ríkisstjórnin hratt verkefninu af stað á samráðsgátt stjórnvalda í byrjun janúar og var gáttinni lokað lokað 23. janúar. Alls bárust 3.985 umsagnir sem er metfjöldi í þátttöku á samráðsgáttinni. Tók um 0,7% þjóðarinnar þátt í samráðinu og eru tillögurnar til aukinnar hagsýni um 10.000.
Í fréttinni segir að langflestar umsagnir hafi borist frá einstaklingum en rúmlega 60 bárust frá félagasamtökum og fyrirtækjum. Þá komu tæplega 68% umsagna frá körlum en rúmlega 32% frá konum.
Samantektin sem birt var 30. janúar gefur hugmynd um helstu sjónarmið umsagnaraðila en við gerð hennar var stuðst við hugbúnað eða vitvél frá OpenAI auk þess sem starfsmenn í stjórnarráðinu lögðu sitt af mörkum við textagerðina. Nú hefst frekari rýni á umsögnunum og síðan verða væntanlega birtar tillögur hagræðingarhópsins sem forsætisráðherra hefur skipað.
„Við í ríkisstjórninni höfum mikla trú á þessari vinnu og hlökkum til að fá í hendur tillögur hagræðingarhópsins,“ sagði Kristrún Frostadóttir þegar hún skipaði hópinn sem á að skila tillögum 28. febrúar.
Í samantektinni segir að mikill fjöldi tillagna hafi lotið að því að sameina stofnanir, ráðuneyti og embætti ríkisins með það að markmiði að hagræða í rekstri, draga úr kostnaði vegna stjórnunar, yfirbyggingar og stoðþjónustu og koma í veg fyrir tvíverknað.
Þá var athygli beint að æðstu stjórn ríkisins og lögð til fækkun aðstoðarmanna og upplýsingafulltrúa á alþingi og í stjórnarráðinu. Þá bárust tillögur um rekstur ráðuneyta, fækkun þeirra og sameiningu.
Hvatt var til þess að nýta stafræna tækni og vitvélar til að minnka kostnað við rekstur ríkisins, til að einfalda regluverk á ýmsum sviðum og bæta samstarf opinberra aðila.
Í mörgum umsögnum komu fram tillögur um sölu fyrirtækja í eigu ríkisins eða breytt fyrirkomulag áberandi ríkisfyrirtækja. „Ríkisútvarpið var andlag mikils fjölda umsagna sem oftar en ekki sneru að því að minnka umsvif stofnunarinnar,“ segir í samantektinni. Þá var sala eða breytt fyrirkomulag á ÁTVR og einkasölu ríkisins á áfengi sömuleiðis oft nefnt og nokkur fjöldi snerist um sölu eða breytingar á rekstrarfyrirkomulagi ISAVIA.
Spennandi verður að sjá hver verður að lokum afstaða stjórnarflokkanna og hagræðingarhópsins. Stærsti stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, sækir einkum fylgi sitt til hópa sem mega ekki heyra minnst á margt sem ber hæst í þessum umsögnum og tillögum. Þær eru í raun róttækari en það sem segir í stefnuskrá nokkurs íslensks stjórnmálaflokks um þessar mundir, nema helst Sjálfstæðisflokksins. Flokkur fólksins er dæmigerður skatta- og millifærsluflokkur í skjóli ríkisbákns. ESB-stefna Viðreisnar þolir ekki róttækni.
Sjálfstæðismenn verða á landsfundi þegar hagræðingarhópurinn skilar tillögum sínum. Verði þær í samræmi við meginstef umsagnanna lýsir fundurinn kannski stuðningi við þær.