10.8.2022 9:32

Báknið burt!

Vegna þess hve íslenska heilbrigðiskerfið er ríkisvætt og hve mjög það þenst út ár frá ári er það eitt skýrasta dæmið hér á landi um bákn.

Báknið burt! er klassískt slagorð og skynsamlegt enda frá ungum sjálfstæðismönnum komið og hefur lifað í marga áratugi. Oft er það nefnt til sögunnar af kaldhæðni af því að mörgum þykir þróunin í samtímanum vera til öfugrar áttar. Slagorðið lifir, stendur af sér allar árásir og fylgir okkur sem áminning.

Vegna þess hve íslenska heilbrigðiskerfið er ríkisvætt og hve mjög það þenst út ár frá ári er það eitt skýrasta dæmið hér á landi um bákn. Í orðabókinni er bákni lýst sem þunglamalegu kerfi og í Íslenskri nútímamálsorðabók Árnastofnunar er þetta dæmi nefnt: „heilbrigðiskerfið er risastórt bákn“.

Björn Zoëga, nýskipaður stjórnarformaður Landspítalans, sagði upp 550 millistjórnendum og skrifstofumönnum þegar hann varð forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum. Hann minnkaði báknið þar.

Nú boðar hann að ráðast þurfi í svipaða aðgerð á Landspítalanum. Hann vill einfalda stjórnskipulag spítalans, fækka millistjórnendum og auka vægi starfsfólks sem sinnir sjúklingum. Þetta er skýrt markmið og endurspeglar sjónarmið þeirra sem kosta og njóta þjónustu sjúkrahússins, að það starfi í þágu sjúklinga.

Margir bíða spenntir eftir því hvort, hvernig og hvenær verður árangur af þessari stefnu stjórnarformanns Landspítalans. Þeir sem snúast gegn henni tala kaldhæðnislega um þá sem vilja báknið burt og láta eins og varðstaða þeirra um óbreytt ástand snúist um mun háleitari markmið en það eitt að verja báknið.

1217227Mbl.is

Í Morgunblaðinu í dag (10. ágúst) er rætt við Margréti Ólafíu Tómasdóttur, heimilislækni og formann Félags íslenskra heimilislækna (FÍH), um vanda heilsugæslunnar. Hún segir fólk „hreinlega að kikna undir álaginu á öllum sviðum innan heilbrigðiskerfisins“.

Ávallt sé bætt við fleiri verkefnum án þess að tími sé ætlaður til að sinna þeim. Nefnir hún þar til dæmis Heilsuveruna, netþjónustu heilbrigðiskerfisins. Á síðasta ári hafi heimilislæknar svarað u.þ.b. 500 þúsund heilsuveruskilaboðum. Það taki hvern sérfræðing frá 1-3 klukkustundir á dag að svara þeim „án þess að það hafi verið búið til rými innan vinnudagsins til að sinna því“. Þá nefnir hún pappírsflóðið, læknar verji stórum hluta starfsdagsins í að „skrifa skýrslur og sinna alls kyns pappírsvinnu. Vinnuhópur leiti nú lausna til að draga úr vottorðaálagi á heilsugæsluna.

Nýlega var sótt rafrænt um endurnýjun á ökuskírteini og læknisvottorð fylgdi. Svarað var af embættismanni sýslumanns að umsóknin væri ekki tekin gild, vottorðið væri ekki frá heimilislækni. Þegar grennslast var fyrir um hverju þetta sætti var fyrst spurt, hvort örugglega væri notað rétt eyðublað. Eftir að upplýst var að svo væri er málið enn í athugun. Flokka sýslumenn lækna í verðuga og óverðuga við útgáfu læknisvottorðs á réttum eyðublöðum?

Þetta eru stór og lítil dæmi um hvernig báknið viðheldur sjálfu sér. Skynsamlegasta leiðin til að rjúfa þennan vítahring er að efla hlut einkaframtaksins innan heilbrigðiskerfisins. Útvista og sjá til þess að ný tækni nýtist til einföldunar en auki ekki álag og flækjustig. Báknið burt!