Bakdyramegin í Brussel
Það hefur enginn verið með hugann við bakdyr Brussel aðrir en Viðreisnarfólkið því að það er komið þar inn, hvað sem Sigmar hrópar.
Ríkisstjórnin vaknaði til lífsins í vikunni þegar alþingi kom saman, stefnuræða forsætisráðherra var flutt, fjárlagafrumvarpið lagt fram og kynnt niðurstaða starfshóps um inntak stefnu í öryggis- og varnarmálum.
Forsætisráðherra gefur valið tiltekt sem kjörorð stjórnar sinnar í upphafi þings. Það er í sama anda og viðhorfið sem birtist hjá stjórnarliðum á vorþinginu, þeir kjósa að líta frekar til baka en fram á veginn. Þeir kenna fyrrverandi ríkisstjórn um það sem við þeim blasir í stað þess að líta á verkefni líðandi stundar sem raunveruleg viðfangsefni sem krefjast viðbragða þeirra. Þau leysast ekki með því að beina athyglinni alltaf á fortíðina, henni verður ekki breytt.
Þetta veldur því að ríkisstjórnin nær ekki flugi. Hún spólar í sama farinu og treystir sér ekki í átökin sem hún kallaði yfir sig með ákvörðuninni um að efna til ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir árslok 2027.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, utanríkisráðherra og höfundur þess að þjóðaratkvæðagreiðslan var sett í stjórnarsáttmálann, sagði eitthvað á þá leið í lok Kastljóss í vikubyrjun að Norðmenn hefðu gengið tvisvar til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og því væri tímabært að gera það hér.
Norðmenn hafa tvisvar sinnum fellt samninga sem norska ríkisstjórnin hennar hafði gert við ESB. Samninga sem norska ríkisstjórnin og öflugustu fjölmiðlar landsins töldu að ætti að samþykkja. Þjóðin sá hins vegar að í skjölunum fólst afsal á yfirráðum á hafi úti, auðlindum sjávar, og aðför að norskum landbúnaði. Grunnstoðir norsks efnahags og rætur samfélagsins voru í húfi.
Hér lætur utanríkisráðherra eins og atkvæðagreiðslan sé aðalmálið. Hún vill umboð til að ráðskast með málefni þjóðarinnar í aðlögunarviðræðum við ESB innan mun þrengri skilyrðaramma af hálfu ESB en þegar Norðmenn sömdu.
Í lýðræðisríki eru atkvæðagreiðslur nauðsynlegur og eðlilegur þáttur stjórnmálalífsins. Þær eru þó aldrei markmið í sjálfu sér heldur það sem um er kosið. Utanríkisráðherra boðar þingsályktunartillögu vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar en treystir sér hvorki til að setja hana á þingmálaskrá stjórnarinnar né lýsa efni hennar. Hún á að detta fullsköpuð inn á þing þegar ráðherrann telur hentuga smugu til þess.
Tímann notar ríkisstjórnin til að vinna með stækkunardeild ESB að því að laga sig að augljósum ESB-kröfum. Í vikunni var bent á að í fjárlagafrumvarpi varaformanns Viðreisnar, Daða Más Kristóferssonar, væru skuldaviðmið ekki lengur sett fram eftir íslenskum lögum um opinber fjármál. Þess í stað giltu þar í fyrsta sinn viðmið Evrópusambandsríkja, Maastricht-skilyrðin.
Þessi laumuaðferð einkennir allt sem nú snýr að athöfnum ríkisstjórnarinnar gagnvart ESB. Svo stendur þingflokksformaður Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson, í ræðustól alþingis og segir um flokk sinn og undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslunnar: „Við gerum það ekki á næturnar og við förum ekki bakdyramegin inn, einfaldlega vegna þess að við vitum ekkert hvar bakdyrnar á Brussel eru.“
Það hefur enginn verið með hugann við bakdyr Brussel aðrir en Viðreisnarfólkið því að það er komið þar inn, hvað sem Sigmar hrópar.