24.8.2022 9:31

Bakari fyrir smið

Sök“ Kara Connect er sambærileg „sök“ umsækjandans um ráðuneytisstjórastöðuna: kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu að opinber aðili hefði neytt aflsmunar og beitt viðkomandi órétti.

Á síðasta kjörtímabili höfðaði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra mál gegn umsækjanda um embætti ráðuneytisstjóra til að freista þess að fá úrskurði kærunefndar jafnréttismála hnekkt. Nefndin taldi ráðningu ráðherrans á í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins hafa verið brot á jafnréttislögum. Ráðherrann sagði málið höfðað til að eyða lagaóvissu.

Ráðherrann tapaði málinu í héraði. Afstaða ráðuneytisins breyttist eftir að nýtt ráðuneyti og nýr ráðherra kom til sögunnar við stjórnarmyndun 28. nóvember 2021. Í febrúar 2022 samþykkti ráðuneytið að greiða þeim sem stefnt var skaðabætur og hætta málarekstri.

040721_R_CL_telehealthÍ fréttum sagði að ekki yrði oftar stofnað til málarekstur af þessu tagi hér á landi „vegna nýrra laga er ekki hægt að stefna einstaklingi vegna úrskurðar kærunefndar heldur verður að höfða mál gegn kærunefndinni sjálfri héðan í frá,“ sagði í Fréttablaðinu 5. mars 2021.

Þessi breyting á lögum um kærur vegna úrskurðar kærunefndar nær ekki til kærunefndar útboðsmála ef marka má tilkynningu frá embætti landlæknis frá 22. ágúst 2022 nákvæmlega sex mánuðum eftir sú kærunefnd birti úrskurð í máli Kara Connect ehf. gegn embætti landlæknis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Origo hf. og Sensa ehf.

Var landlæknisembættinu gert að greiða 9 milljóna kr. sekt vegna brota embættisins á lögum og reglum um opinber innkaup. Jafnframt skyldi embættið greiða Kara Connect 2 m. kr. í málskostnað.

Af undarlega orðaðri tilkynningu landlæknisembættisins má ráða að það sé „með sorg í hjarta“ sem gengið sé til málaferla gegn Kara Connect. Segir embættið að sér sé „nauðugur sá kostur“ að stefna einkafyrirtæki sem leitaði réttar síns gagnvart embættinu fyrir kærunefnd og hafði betur.

„Sök“ Kara Connect er sambærileg „sök“ umsækjandans um ráðuneytisstjórastöðuna: kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu að opinber aðili hefði neytt aflsmunar og beitt viðkomandi órétti. Nú á Kara Connect að gjalda þess og verja niðurstöðu kærunefndar fyrir dómstólum.

Embættið ber fyrir sig að „leikreglurnar“ séu „því miður þannig að ekki er heimilt að stefna kærunefndinni. Stefna þarf kæranda og öllum aðilum máls til þess að fá breytingu eða ógildingu,“ segir í tilkynningunni.

Ber að skilja þetta á þann veg að alþingi hafi aðeins breytt ákvæðum um málaferli vegna úrskurða kærunefnda þegar fjallað er um jafnrétti kynjanna en ekki í öðrum tilvikum? Var fréttin sem vitnað er til hér að ofan röng? Hvað með jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar?

Á þessu skrýtna máli er önnur hlið: Það sýnir ofurþörf heilbrigðiskerfisins fyrir ríkisrekstur eða ofurótta þess við að einkaaðilar nái þar fótfestu. Meira að segja þegar kemur að upplýsingatækni og nýtingu hennar eru opinberar innkaupareglur teygðar og togaðar til að ríkið geti drottnað yfir öllu.