Bæta má rafræna opinbera þjónustu
Nú á tíma átaks innan stjórnsýslunnar til að auðvelda almenningi að eiga rafræn samskipti við opinbera aðila er ástæða að huga að reynslu af þessum samskiptaleiðum. Lítil dæmi kunna að leiða til stórra lausna.
Nú á tíma átaks innan stjórnsýslunnar til að auðvelda almenningi að eiga rafræn samskipti við opinbera aðila er ástæða að huga að reynslu af þessum samskiptaleiðum. Lítil dæmi kunna að leiða til stórra lausna.
Fyrir nokkru bauð ISAVIA bókun bílastæða á Keflavíkurflugvelli á hagstæðari kjörum á netinu. Þjónustan var fyrst bundin við stóra langtímastæðið. Síðan bættust við tveir kostir, (1) að leggja bílnum brottfararmegin við flugstöðina og nálgast hann þar við heimkomu; (2) að skilja bílinn eftir á stæðinu brottfararmegin, setja lykilinn í rör við inngang í flugstöðina, nálgast hann í afgreiðslu komumegin og ganga að bílnum á stæði þar við heimkomu.
Þetta er góð þjónusta, misjafnlega dýr, auðvelt að bóka hana og breyti maður bókun eða afturkalli breytast færslur á kreditkorti í samræmi við það. ISAVIA býður þessar mismunandi leiðir vegna samkeppni við einkafyrirtæki sem taka að sér að geyma bíla fyrir ferðalanga auk þess til dæmis að þrífa þá og bóna.
ISAVIA er opinbert hlutafélag og ber að mörgu leyti merki um ókostina sem slík félög hafa þegar kemur að skorti á samkeppni. Fréttir hafa raunar birst um að ekki sé auðvelt við að keppa við félagið um bílastæðaþjónustu.
Íslandspóstur er annað opinbert hlutafélag. Íslandspóstur nýtir ekki stafræn samskipti við viðskiptavini sína betur en svo að kostnað við að áframsendan póst er til dæmis ekki unnt greiða með innheimtukröfu í heimabanka (990 kr. á mánuði). Sé spurt hvort ekki megi greiða ár fyrir fram á netinu er það vanköntum háð, reyna megi það í gegnum síma en helst verði viðskiptavinurinn að fara á pósthús.
Í mars sendi ríkisskattstjóri (RSK) frá sér ógrynni póstlagðra bréfa til að fá upplýsingar um „raunverulega eigendur“ alls kyns félaga lífs og liðinna. Var viðtakendum hótað dagsektum svöruðu þeir ekki fyrir 30. mars. Unnt var að nálgast eyðublað á vefsíðu RSK. Eftir að það hafði verið fyllt út mátti prenta það, undirrita, skanna og senda sem viðhengi með tölvubréfi til RSK eða senda í venjulegum pósti. Rafræn undirskrift dugði ekki.
Félag var afskráð með skilmerkilegum hætti árið 2013 hjá opinberum sýslunarmanni. Töldu allir viðkomandi að þar með væri sögu félagsins lokið í opinbera kerfinu en í „rassíu“ RSK vaknaði félagið aftur til lífsins og kostaði nokkur bréfaskipti að afmá það endanlega af opinberum skráð. Fróðlegt væri að telja saman hve margar vinnustundir mætti spara ef afskráning félags hjá einum opinberum aðila virkaði innan alls opinbera kerfisins. Þarna gæti algrím komið til hjálpar.
Eins og sagði í upphafi eru þetta ef til vill of lítil dæmi til að falla undir rafræna stjórnsýsluátakið. Öll snerta þau þó samskipti einstaklinga við opinbera kerfið. Öll eiga það sameiginlegt að með aukinni rafrænni þjónustu er unnt að spara bæði fjármuni og spor.
ES: eftir að þetta hafði verið sett inn á síðuna barst bréf frá Íslandspósti þar sem gefið var reikningsnúmer og sagt að millifæra mætti greiðslu þangað, þyrfti sem sagt ekki að fara í pósthús til að greiða fyrir áframsendingu á pósti.