Ávarp Margrétar Danadrottningar
Flutningur drottningarinnar var ekki síður áhrifamikill en boðskapur hennar. Hún flutti mál sitt hægt og skýrt og talaði inn í hug og hjarta áhorfandans.
Margrét Danadrottning flutti 47. áramótaávarp sitt klukkan 18.00 á gamlársdag, fyrsta ávarpið flutti hún árið 1972. Að þessu sinni var hún í Fredensborgarhöll vegna framkvæmda á hallartorginu við Amalienborg.
Margrét Danadrottning í Fredensborgarhöll.
Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri, sagði frá áramótaávarpi drottningarinnar á FB-síðu sinni á nýársdag. Það hafi „að venju [verið] áhrifamikið og lýsti visku hennar, mannskilningi, ábyrgð og víðsýni“.
Undir þetta skal tekið. Hér er vitnað í endursögn Tryggva:
„Sameiginlegur styrkur okkar nærist af því að sýna samferðamönnum virðingu, sýna öðrum traust og trúnað og við berum öll ábyrgð á samfélagi okkar. Sú ábyrgð eru rætur samfélagsins. Ef ræturnar eru sjúkar getur tréð ekki staðið – og það tekur mörg ár fyrir nýtt tré að vaxa. Þess vegna er það alvarlegt, ef einhverjir þeir, sem eru mikilsverður hluti af samfélagi okkar, taka létt á ábyrgð sinni og bregðast skyldum sínum. Er þetta eitthvað, sem við þekkjum úr samtíma okkar?“
Fréttaskýrendur segja að þessi orð megi túlka í ljósi þess að Britta Nielsen var handtekin og ákærð fyrir að hafa svikið milljónir út úr Socialstyrelsen. Þá hafi Danske Bank gerst sekur um milljarða peningaþvætti í gegnum útibú í Eistlandi.
Flutningur drottningarinnar var ekki síður áhrifamikill en boðskapur hennar. Hún flutti mál sitt hægt og skýrt og talaði inn í hug og hjarta áhorfandans þar sem hún sat við borð og las af blöðum. Stuttur texti var á hverju blaði, hún fipaðist hvorki þegar hún mismælti sig, átti í erfiðleikum með að finna línuna sína aftur eða með að fletta blöðunum. Allt varð þetta í raun aðeins til að færa hana nær þeim sem sá og hlustaði.
Kristján X. var enn konungur á Íslandi þegar hann flutti fyrsta áramótaávarp Danakonungs í útvarpi, það var undir hernámi Þjóðverja árið 1941.
Í Jyllands-Posten segir að vinnan við að semja áramótaávarpið hefjist í október þegar embættismaður í forsætisráðuneytinu sendi „stikkorð“ til Amalienborg. Þar sé að finna tillögu um hugsanlegt efni í ávarp drottningar. Þegar hún hefur lokið við gerð ávarpsins er það sent forsætisráðuneytinu til samþykktar. Slíks samþykkis var einnig leitað hér á landi á árum áður.
Ávarp drottningar er venjulega 11 til 13 mínútur að lengd og er þetta í eina skiptið á árinu sem hún talar beint til þjóðarinnar.