16.6.2018 10:57

Augu heimsins á HM

Einbeitingin hjá Portúgalanum Cristiano Ronaldo var áþreifanleg í gær þegar hann tók aukaspyrnuna í leiknum gegn Spánverjum.

Knattspyrnan á hug og hjörtu Íslendinga og alls heimsins um þessar mundir. Leikur landsliðsins okkar gegn Argentínu í Moskvu í dag er einstakur viðburður í íslenskri íþróttasögu og sögu heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem sagt er vinsælasta sjónvarpsefni allra tíma. Þetta er allt af þeirri stærðargráðu að ekki er unnt að ná utan um það, þess vegna dugar ekki annað en einbeita sér að hverjum leik.

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu í leiknum gegn Spáni 15. júní.

Einbeitingin hjá Portúgalanum Cristiano Ronaldo var áþreifanleg í gær þegar hann tók aukaspyrnuna í leiknum gegn Spánverjum. Ronaldo hefur margæft skot á mark úr svipaðri stöðu en það tekst ekki að skora nema hafa til þess hugarró.

Eftir vetrarólympíuleikana í S-Kóreu var rætt við bandarísku skíðakonuna Clare Egan (30 ára) í The New York Times. Hún sagði: „Líkamlega áreynslan er erfið, að beita öllum vöðvum og láta hjartað dæla eins hratt og maður getur. Mesta áskorunin í skíðaskotfimi felst þó í andlega þættinum. [...]

Hættulegasta augnablikið fyrir keppandann er þegar hann hefur hitt fjórum sinnum í mark og á síðasta skotið eftir. Hugsi hann þá: "Takist þetta, fæ ég gullverðlaunin" tapar hann örugglega, sagði Egan. Sigurvonin mætti ekki trufla einbeitinguna að verkefninu sjálfu.

Í leiknum gegn Spánverjum hafði Ronaldo þegar skorað tvö mörk, tækist honum undir lok leiksins að skora þriðja markið yrði jafntefli. Hann tók sér 135 sekúndur til að anda djúpt og lifa sig inn í augnablikið, ýta frá sér spennunni allt um kring á leikvellinum og gleyma sjónvarpsvélunum. Hann skaut beint í mark og allt ætlaði um koll að keyra, ekki aðeins á vellinum í Sotsjí heldur um víða veröld.

Knattspyrnufræðingur breska blaðsins The Daily Telegraph sagði eftir leikinn að á Fisht leikvellinum hefði Ronaldo gefist tækifæri til þess í eitt skipti fyrir öll að sanna að hann væri „mesti knattspyrnumaður sem plánetan hefur nokkru sinni séð“ – hvorki meira né minna. Ronaldo nyti sín best undir spennu og álagi eins og þarna hefði myndast og hann gerði það á þann hátt að virtist jafnvel óheilbrigt. Fyrir hann væri þetta þó hluti sjálfrar tilveru hans.

Njóta má góðra knattspyrnuleikja án þess að vera innvígður. Spennan og óvæntar fléttur gera þá að vinsælasta sjónvarpsefninu. Lionel Messi, landsliðsmaður Argentínu, keppir um stórstjörnutitilinn við Ronaldo. Sagt var í gær að í dag yrði hann að skína skærar en Ronaldo gegn Spáni.

Íslenska landsliðinu sem þegar hefur unnið heimsafrek með því að komast til Moskvu fylgja bestu heillaóskir í leiknum við hann í dag.