19.6.2018 10:10

Auglýsingaryksuga RÚV - Netflix slær í gegn með The Staircase

Æ oftar má lesa frásagnir af þáttaröðum á Netflix-rásinni sem býður ógrynni af efni og áskrifendur skoða það þegar þeim hentar.

Augljóst er að Ríkisútvarpið nýtir nú yfirburði sína á sjónvarpsmarkaðnum til að sópa til sín eins miklu fé og frekast er unnt með auglýsingum í tengslum við HM í knattspyrnu í Rússlandi, Frásagnir forráðamanna annarra fjölmiðla af stöðu sinni gagnvart þessum miðli sem fær 4,1 milljarð í skatttekjur á ári sýna hve samkeppnisstaða þeirra er ömurleg þegar um slíkan stórviðburð er að ræða og auglýsingaryksuga ríkismiðilsins er sett á fullt. Hitt er svo annað mál að ekkert verður við þetta ráðið enda benda svör opinberra eftirlitsaðila til þess að þeir ætli, jú, að kynna sér málið en að nokkuð gerist með mótvægisaðgerðum gegn ofuraflinu er ólíklegt.

Spurning er hvort allt það fé sem aflað er á þennan hátt rennur aðeins til þess að standa undir kostnaði við miðlun mynda og frétta af HM eða hvort einhverjir brauðmolar nýtist til að bæta dagskrána almennt. Hlustunin á rás 1 og rás 2 er að jafnaði dapurleg. Þar virðist líka allt ganga af gömlum vana. Þótt gert sé út á fyrirtæki við öflun auglýsingatekna leggur ríkisútvarpið sig til dæmis ekkert fram um að flytja viðskiptafréttir. Fréttastofa þess hefur kannski aldrei verið fjær því að flytja slíkar fréttir en nú. Áhugi hennar beinist fyrst og síðast að stöðu hins opinbera og sá vinnustaður sem þar er oftast til umræðu er Landspítalinn, má segja að fréttir af honum séu fastur liður eins og venjulega.

Micahel Peterson (t,v.) og David Rudolf úr heimildarmyndinni The Staircase í 13 þáttum á Netflix.

Morgunblaðið birtir daglega stutta frásögn einhvers blaðamanns síns af því sem hann fylgist með á ljósvakanum. Æ oftar má lesa frásagnir af þáttaröðum á Netflix-rásinni sem býður ógrynni af efni og áskrifendur skoða það þegar þeim hentar. Hér skal nefnd þáttaröðin The Staircase sem hefur verið í vinnslu í um það bil 16 ár og lýsir réttarhöldum yfir Michael Peterson sem er ákærður fyrir að hafa orðið konu sinni að bana þegar hún féll niður stiga á heimili þeirra.

Um er að ræða 13 heimildarþætti sem urðu til 2004, 2013 og nú 2018.

Það vakir ekki fyrir franska leikstjóranum Jean-Xavier de Lestrade að komast að því hvort Peterson sé sekur eða saklaus heldur að lýsa hvernig vel stæður einstaklingur stendur að vígi gagnvart réttvísinni, lögreglu, rannsakendum, kviðdómi og dómara.

Jean-Xavier de Lestrade og hans fólk hafði einstæðan og stöðugan aðgang að Michael, fjölskyldu hans og verjanda. David Rudolf verjandi er í raun eins og þaulæfður leikari.

De Lestrade lýsti Micahel á þennan hátt fyrir blaðamönnum: „Hann er mjög klár. Hann er rithöfundur. Hann hefur gaman af að tala ... og auðvitað reyndi hann að heilla myndavélina. Að heilla tökumennina... Ég reyndi þó alltaf að halda hæfilegri fjarlægð milli hans og mín... Ég gleymdi því aldrei að hann var viðfangsefnið.“

Sjón er sögu ríkari en af frásögnum blaða um heim allan má ætla að The Staircase sé hæst á lista þeirra sem horfa á Netflix um þessar mundir, gefi þeir sér tíma frá HM.