Atvinnumissir og áhugalaus ríkisstjórn
Hér eru aðeins nefnd fáein ný dæmi um hvert stefnir í atvinnumálum. Varla hafa stjórnendur landsins ekki verið svo mikið með hugann við annað að þeir hafi ekki áttað sig á hvert stefndi.
Meginstraumar í íslensku atvinnulífi gleðja engan um þessar mundir. Tímabundin rekstrarstöðvun PCC BakkiSilicon hf. á Húsavík leiðir til þess að fólki fækkar þar og þrengir að hjá þjónustufyrirtækjum. Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík, segir við Morgunblaðið í dag (29. september):
„Það vantar að menn komi hingað og kynni sér málin almennilega. Ég hef verið í þessu lengi og ég man varla eftir svo miklu áhugaleysi. Við höfum aldrei staðið frammi fyrir jafn alvarlegri stöðu og lokun PCC.“
Orðið „menn“ vísar til landstjórnenda. Áhugi þeirra á því sem gerist á landsbyggðinni hefur birst skýrast í tillitsleysi til allra viðvarana þaðan um áhrif snögghækkunar auðlindagjaldsins og aðferðarinnar sem þar var beitt.
Fimmtudaginn 25. september var 25 starfsmönnum Norðuráls á Grundartanga sagt upp störfum. Ástæðan var sögð aukinn framleiðslukostnaður og minni framleiðsla.
Fimmtudaginn 25. september birti Viðskiptablaðið frétt um að Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja ætluðu að óska eftir upplýsingum frá Arion banka og Kviku banka um uppsagnir kæmi til sameiningar bankanna. Talið er að um 20% starfsmanna bankanna geti misst vinnuna, það er um 200 manns. Af hálfu Kviku kom fram að þetta væri óábyrgt tal.
Fjársýsla ríkisins sagði upp sex starfsmönnum 25. september.
Mánudaginn 29. september misstu um 400 manns vinnuna þegar flugfélagið Play hætti starfsemi. Enginn sér strax fyrir afleiðingar þess og áhrif á þróunina í efnahags- og atvinnumálum.
Kristrún Frostadóttir flytur ræðu á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar 27. september 2025 (mynd: vefsíða Samfylkingarinnar).
Hér eru aðeins nefnd fáein ný dæmi um hvert stefnir í atvinnumálum. Varla hafa stjórnendur landsins ekki verið svo mikið með hugann við annað að þeir hafi ekki áttað sig á hvert stefndi. Líklega birtist áhugaleysi þeirra um atvinnumálin þó víðar en á Húsavík.
Laugardaginn 28. september kom flokksstjórn Samfylkingarinnar saman á Hellu á Rangárvöllum til að stilla saman strengina, fara yfir stöðu mála og leggja línur um framtíðina.
Kristrún Frostadóttir, flokksformaður og forsætisráðherra, flutti ræðu og samþykkt var stjórnmálaályktun. Hvoru tveggja var svo innihaldslítil froða að furðu sætir þegar litið er til þess sem hér hefur verið rakið og þeirra viðfangsefna sem við blasa.
Í ræðu ráðherrans eða ályktun fundarins er ekki gerð minnsta tilraun til að nálgast jörðina heldur svifið áfram á rauðu skýi með frasa eins og: Samfylking í þjónustu þjóðar og ályktun eins og þessa:
„Með því að hrista upp í kerfinu þegar við á um leið og við verndum og varðveitum það sem bindur okkur öll saman og viðheldur samheldni okkar sem þjóð. Það er leiðarljós ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að vekja aftur von og trú fólks á að stjórnmálin geti virkað og verið stolt yfir því sem við getum áorkað saman.“
Nú reynir á inntak frasanna og áfallaþol plansins – þá birtist áhugaleysið.