16.3.2020 10:10

Átta frábærar qi gong æfingar

Kínverskar æfingar til heilsueflingar

Veiran sem herjar á allar þjóðir heims um þessar mundir á uppruna sinn í Kína eins og óteljandi faraldrar í aldanna rás. Þaðan eru einnig komnar fimm þúsund ára gömlu qi gong æfingarnar til að styrkja ónæmiskerfið og stuðla að langlífi. Eitt frægasta æfingakerfið köllum við qi gong iðkendur á Íslandi Átta frábæru æfingarnar (e: Eight borcades). Einmitt nú á tímum einangrunar í sóttkví og samkomubanns er rétti tíminn til að tileinka sér þessar æfingar sem gera má hvar sem er og hvenær sem er.

Í æfingunum er sérstök áhersla lögð á að styrkja öndunarfærin og lungun. Skiptir það miklu við núverandi aðstæður.

Þeir sem vilja sjá aðra gera æfingarnar eiga auðvelt með að nálgast óteljandi myndbönd með þeim á netinu. Hér er inntaki  og áhrifum æfinganna hins vegar lýst á íslensku sem auðveldar skilning á þeim. Minnumst þess einnig að hugleiðsla er ríkur þáttur í qi gong og með því að beina athygli að öndun og hreyfingum hvílum við hugann.

Engum er um megn að gera þessar æfingar. Þær má gera sitjandi og ekki endilega í samfellu en hver æfing opnar ákveðna orkubraut og þess vegna skiptir hver og ein máli.

Átta frábæru æfingarnar

Ba Duan Jin (Átta frábærar æfingar) voru þróaðar á tólftu öld af frægum hershöfðingja Yueh Fei. Tilgangur þeirra er að styrkja líkamann, skapa jafnvægi mikil lykil líffæra og að losa kerfi líkamans við staðnaða spilliorku. Átta frábæru æfingarnar njóta mikilla vinsælda og eru kjörnar fyrir byrjendur. Með því að tengja hugann æfingunum er unnt að nýta kosti þeirra til fulls. Það eitt að stunda æfingarnar reglulega sem einfalda líkamsþjálfun losar um spennu í vöðvum, bætir líkamsburð, eykur blóðstreymi og stuðlar að slökun. Hverja æfingu á að gera 6 til 12 sinnum. Gott er að byrja með því að endurtaka hverja æfingu 6 sinnum og fjölga skiptunum stig af stigi. Í fornum textum er mælt með 24 til 36 endurtekningum á hverri æfingu.

Andið inn um nefið með tungubroddinn í efri gómi en út um munninn. Hver og einn stundar qi gong á eigin ábyrgð. Æfingarnar stuðla að heilbrigði en þær koma ekki í stað læknismeðferðar. Grunnæfingar átta frábæru æfinganna eru ætíð þær sömu en tilbrigði þeirra eru margvísleg.

8-brocades-2A. Lófum snúið til himins [til að skapa jafnvægi í þrí-brennaranum].

Standið með axlarbreidd á milli fóta sem eru samhliða, spennulaus hné [hér kölluð trjástaða]. Tæmið lungun og slakið á. Tengið saman fingur beggja handa með lófa upp, lyftið handleggjum hægt á innöndun, þegar komið er að hjartastað snúið lófunum fram og upp og lyftið þeim áfram. Lófunum hefur verið lyft til himins þegar innönduninni lýkur. Horfið upp til handanna og teygið ykkur með því að lyfta hælum frá jörðum. Andið mjúklega frá ykkur um leið og handleggir síga niður að síðum og þið sigið sjálf niður á hælana. Standið slök með handleggi við síður. Endurtakið síðan sömu æfingu.

Áhrif: Skapar jafnvægi í öllum innri líffærunum. (Með orðinu þrí-brennari er vísað til hjarta, lungna og maga.)

B. Skotið af boga.

Staðan er kölluð áseta – eins og setið sé á feitum hesti. Slakið á handleggjum og lyftið þeim upp að brjósti. Á innöndun þrýstið vinstri hendi frá ykkur eins og þið haldið ör við boga og dragið hægri hendi aftur eins og þið togið í bogastreng, horfið fram eftir örinni. Andið frá og snúið ykkur á hægri hlið og endurtakið æfinguna með því að þrýsta hægri hendi frá ykkur og draga þá vinstri aftur. Andið að þegar þið teygið og frá þegar handleggir koma aftur að líkamanum.

Áhrif: Jafnar álag á bakvöðva og hrygg. Styrkir lungu og vöðva handleggja, maga, baks og fóta. Stuðlar almennt að góðri heilsu og lífsþrótti.

C. Að aðskilja himin og jörð.

Trjástaðan. Setjið hendur niður fyrir nafla, lófar snúa upp. Andið að og lyftið báðum höndum að hjartastað. Þegar komið er að hjarta og innöndun er lokið haldið í ykkur andanum, snúið hægri lófa alveg þannig að hann snúi til himins og haldið áfram að lyfta honum, snúið vinstri lófanum þannig að hann snúi að jörðu og látið hann síga. Andið frá á meðan þið látið hægri lófa síga að hjartastað þar sem hann mætir vinstri lófa. Andið að og lyftið vinstri lófa en látið þann hægri síga í átt til jarðar.

Áhrif: Lífgar bolinn með orku himins og jarðar. Opnar brjóstið og dýpkar öndunina auk þess að færa orku til milta á vinstri hlið og lifur á hægri hlið.

D. Vitra uglan lítur aftur fyrir sig.

Standið með fætur saman og horfið langt frá ykkur. Innöndun. Snúið höfðinu til vinstri hliðar á útöndun og horfið eins langt aftur fyrir ykkur og þið getið. Líkaminn er beinn og hreyfingarlaus. Andið að inn að miðju og síðan frá og snúið höfðinu til hægri.

Áhrif: Þjálfar háls og augnavöðva, losar um spennu. Nærir innri líffæri og eykur súrefni í blóðinu.

E. Að hrista höfuð og sveifla rófunni [að hrekja eld úr hjartanu].

Áseta. Leggið hendur á hnéskeljar. Færið þungann yfir á vinstri fót og þrýstið fast niður með lófanum. Snúið höfðinu til vinstri, andið frá og lítið aftur fyrir ykkur þegar þið réttið úr hægri fótleggnum. Endurtakið á hina hliðina.

Áhrif: Losar líkamann við eldorku í hjarta og skapar orkujafnvægi milli hjarta og nýrna, elds og vatns.

F. Að þrýsta á jörð og snerta himin.

Trjástaða. Andið hægt út um munninn, hallið ykkur fram og beygið ykkur niður. Andið að og lyftið höndum hægt upp fyrir höfuð, lófar snúa hvor að öðrum. Andið mjúklega frá ykkur, slakið á í öxlum handleggir síga með hliðum til jarðar, lófar snúa niður og út. Andið að og lyftið að nýju.

Áhrif: Teygir og mýkir hryggsúluna. Stuðlar að súrefnismiklu orku- og blóðstreymi til heilans. Skapar jafnvægi milli fram og aftur hliðar líkamans, efri og neðri hluta hans. Styrkir nýrun.

G. Slegið frá sér með reiðiaugnaráði.

Ásetan. Hafið hnefa við mjöðm. Sláið á útöndun reiðilega til hliðar með vinstri handlegg. Starið hörkulega á ímyndaðan óvin. Látið eins og orka streymi úr hnefa ykkar, hægri höndin er kreppt við mjöðmina. Andið að og á útöndun sláið þið til hliðar með hægri handlegg.

Áhrif: Losað er um tilfinningar reiði og spennu. Súrefnismagn eykst í blóðinu.

H. Að lyfta sér upp á tábergið.

Trjástaða og horfið langt frá ykkur. Handleggir eru slakir með hliðum. Hugið að því að axlir séu spennulausar bægið öllum hugsunum á brott, tæmið hugann. Lyftið ykkur upp á tábergið á innöndun. Staldrið aðeins við á tánum. Látið hælana síga á útöndun. Endurtakið, andið að og lyftið, frá og sigið.

Áhrif: Skapar orkubylgju, eykur blóðflæði til innri líffæra sem stuðlar að hreinsun þeirra. Eftir jafnvægi og samhæfingu. Jarðarorkan streymir inn í líkamann í gegnum orkupunkta í iljunum.