31.3.2018 10:32

Átökin á Gaza - hlutur SÞ

Í dönsku greinninni segja höfundar allsherjarþingi SÞ stjórnað af 48 múslímskum ríkjum og olíuviðskiptavinum þeirra í hópi aðildarríkjanna.

Í tilefni af yfirlýsingu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta 6. desember 2017 um að bandaríska sendiráðið í Ísrael yrði flutt til Jerúsalem birtist grein eftir Lone Nørgaard, lektor, cand. mag og Torben Hansen sagnfræðing á dönsku vefsíðunni altinget.dk 7. janúar 2018. Greinin birtist á íslensku í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála en þar lýsa höfundarnir hlut Sameinuðu þjóðanna (SÞ) þegar litið er til palestínskra flóttamanna í kringum Ísrael.

Nú berast átakafréttir frá landamærum Ísraels og Gaza-svæðisins og föstudaginn 30. mars gaf  Antonio Guterres, aðalritari SÞ, fyrirmæli um sjálfstæða rannsókn eftir að palestínskir embættismenn sögðu að 16 Palestínumenn hefðu fallið þann dag í átökum við hermenn Ísraela. Er það mesta mannfall í átökum á Gaza síðan í stríðsátökunum þar árið 2014.

Í dönsku greinninni segja höfundar allsherjarþingi SÞ stjórnað af 48 múslímskum ríkjum og olíuviðskiptavinum þeirra í hópi aðildarríkjanna. Höfundarnir benda á að flóttamannavanda araba umhverfis Ísrael sé viðhaldið af SÞ-stofnuninni UNRWA – The United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East. Fáir viti um þessa stofnun þótt hún gegni lykilhlutverki í Palestínudeilunni. Það sé kannski ekki svo skrýtið því að einmitt UNRWA eigi mikið undir því að óreiðan haldist sem mest í Mið-Austurlöndum.

Í greininni segir:

„UNRWA var komið á fót árið 1949. Ætlunin var að stofnunin starfaði tímabundið í þágu arabískra flóttamanna. Hún starfar hins vegar enn þann dag í dag og í stað þess að vinna að því að arabísku flóttamennirnir settust að í öðrum Arabalöndum leggur UNRWA sig fram um að kynna þá sem píslarvotta í mjög sérstakri stöðu – og á þar oftast nána samleið með Arabalöndunum.

Palestínumenn hafa nefnilega fengið allt aðra réttarstöðu en allir aðrir hópar flóttamanna, þeim fjölgar þess vegna á sama tíma og það fækkar jafnt og þétt í öðrum hópum af eðlilegum aðstæðum og vegna aðlögunar.

Meðal flóttamannahópa eru Palestínumenn þeir einu sem hafa öðlast „right of return“ (endurkomurétt), að mati araba nær hann einnig til nátengdra og ekki aðeins flóttamannanna og sameiginlegra afkomenda þeirra. Það er alls ekki fyrir hendi neinn „right of return“ fyrir [...] fyrir milljónir Hindúa sem urðu að flýja til Indlands þegar Pakistan kom til sögunnar árið 1947, hálfu ári áður en Ísraelsríki var stofnað.

Palestínumenn eru eini flóttamannahópurinn í veröldinni sem nýtur þeirrar viðurkenningar hjá fjölmiðlum og stjórnmálamönnum að hann hafi rétt til að snúa aftur til síns heima. [...]

Hundruð þúsunda Palestínumanna og afkomendur þeirra njóta nú jórdansks ríkisborgararéttar en UNRWA lítur enn á þá sem flóttamenn. Börn, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn palestínskra flóttamanna í Líbanon geta ekki – jafnvel eftir tæplega 60 ára dvöl – fengið líbanskan ríkisborgararétt, þau mega ekki eiga eða eignast fasteign og þeim er bannað að starfa í vissum atvinnugreinum. Í öllum tilvikum er þarna brotið gegn sáttmálum sem gilda til dæmis í Danmörku.

Í staðinn fyrir að vinna að því að Palestínumenn falli inn í og lagi sig að nýjum gistilöndum sínum leggur UNRWA áherslu á að ýta undir reiði palestínsku flóttamannanna til að halda lífi í arfgengu hatri þeirri.“