22.10.2017 10:35

Átakanleg leit FRÚ í tölvubréfum Bjarna

Sannast sagna er átakanlegt að FRÚ telji sér sæma að birta þennan samtíning um Bjarna Benediktsson, þáv. alþingismann, sem átti ekki í neinum óvenjulegum samskiptum við Glitni en ræddi um einkahagi sína í tölvubréfum sem er að finna í skjalabunkanum.

Yfirstjórn fréttastofu ríkisútvarpsins (FRÚ) ákvað að fela Aðalsteini Kjartanssyni að gramsa í skjalabunkanum frá Glitni sem lokað var með lögbanni mánudaginn 16. október og birtist afraksturinn í tveimur fréttum sem lesa mátti á ruv.is laugardaginn 21. október.

Sannast sagna er átakanlegt að FRÚ telji sér sæma að birta þennan samtíning um Bjarna Benediktsson, þáv. alþingismann, sem átti ekki í neinum óvenjulegum samskiptum við Glitni en ræddi um einkahagi sína í tölvubréfum sem er að finna í skjalabunkanum.

Í upphafi fréttar Aðalsteins Kjartanssonar á ruv.is segir: „Í gögnum, sem fréttastofa hefur undir höndum, er ekki að sjá að slitarstjórn [svo!] Glitnis hafi talið Bjarna hafa framið lögbrot með viðskiptum sínum.“ Ástæðan fyrir að dregin er athygli að orðinu slitastjórn er annars vegar ritvilla og hins vegar að þessi slitastjórn hefur ekkert vald til að ákvarða hvort um lögbrot sé að ræða, hjá Bjarna eða öðrum. Fjármálaeftirlitið rannsakaði hins vegar alla þætti bankaviðskipta sérvalinna manna á þessum tíma og hefur Bjarni vafalaust verið í þeim hópi. Ekkert var aðhafst í málum hans af opinberri hálfu af því að við opinbert eftirlit kom ekkert ólögmætt í ljós.

Tilraunir FRÚ til að gera Bjarna Bendiktsson tortryggilegan með því að gramsa í gömlum tölvubréfum hans minna á fallin lauf í haustvindi.

Væri þessi opinbera niðurstaða höfð að leiðarljósi var ástæðulaust fyrir Aðalstein Kjartansson að velta sér upp úr einkafjármálum Bjarna og birta glefsur úr illa fengnum tölvubréfum. Aðalsteinn leitast við að réttlæta frétt sína þar sem: „Það virðist hafa skipt Glitni máli að Bjarni var alþingismaður á sama tíma og hann átti í viðskiptum.“ Sagt er að í tölvubréfi starfsmanns Glitnis í London til Barclays-banka sé tilgreint að Bjarni sé alþingismaður.  FRÚ lætur að því liggja að með þessu sé staða Bjarna gagnvart Barclays styrkt. – Fréttamaðurinn hefur ekki hugmyndaflug til að ímynda sér að í samskiptum bankamanna sé sjálfsögð eða reglubundin varfærni að upplýsa komi þingmenn að viðskiptum, bankar kunni að hafna viðskiptum við þá.

Vegna þessarar fréttar upp úr a.m.k. níu ára gömlum tölvubréfum hringdi FRÚ í Bjarna þar sem hann var staddur norður í landi laugardaginn 21. október og spurði hann hvort svona mikil og persónuleg samskipti við banka væru eðlileg. Bjarni svarar réttilega að á þessum árum hafi hann verið þátttakandi í viðskiptalífinu sem hann sé ekki lengur.

Á FRÚ virðast menn þeirrar skoðunar að setja verði skorður við því hve oft alþingismenn sem sinna viðskiptum samhliða þingmennsku hafi samband við bankastofnanir.

Varð þetta óheppilegt svona eftir á að hyggja, engu að síður? spyr FRÚ til að ýta undir að eitthvað óeðlilegt hafi verið á ferðinni fyrir a.m.k. 9 til 10 árum.

Bjarni svaraði: „Ég hef fyrir löngu síðan gert grein fyrir því að ég telji, sérstaklega eftir að ég tók að mér forystu í stjórnmálum, að það sé langbest að hafa skýr skil á milli viðskiptaþátttöku og stjórnmála. Það er lína sem ég dró fyrir margt löngu.“

Þá kemur rúsínan í pylsuendanum hjá FRÚ sem spyr:  „En þú átt þessi samskipti í gegnum netfang þingsins alveg til jafns við þetta netfang sem þú hafðir til annarra starfa til dæmis eins og í stjórnarformennsku í N1, er það eðlilegt að þú nýtir það netfang, þingnetfangið í þessum samskiptum?

Bjarni svarar: „Ég skal ekki segja, þetta er bara svona, það er mjög oft sem frumkvæðið að samskiptunum kemur utan frá og maður fær samskipti til sín á þetta netfang og maður kannski bregst við því úr sömu tölvunni.“

Eins og sagði í upphafi er beinlínis átakanlegt að fylgjast með því hvernig FRÚ leitast við að gera eitthvað tortryggilegt sem er það ekki nema í huga samsæriskenningasmiða.

Starfsemi FRÚ er á villigötum. Ráði yfirstjórn hennar ekki við að skipa fréttamiðlun innan réttmætra marka verður stjórn ríkisútvarpsins að láta málið til sín taka nema henni sé sama þótt starfsmenn stofnunarinnar grafi sí og æ undan öllu trausti til hennar.

Ef ástæða þykir til að verja fé og mannafla til að rannsaka gömul einkafjármál Bjarna Benediktssonar enn á ný má spyrja hvers vegna FRÚ setur ekki af stað rannsókn á máli sem snertir þjóðarhag og ríkisfjármál, það er hvernig í ósköpunum Svavari Gestssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur datt í hug að gera Icesave-samningana vorið 2009. Þar voru hagsmunir þjóðarinnar hafðir að engu af óskýrðum ástæðum. Hvernig væri að RÚV leitaði skýringanna? Eru þær einfaldlega þær að Svavar „nennti þessu ekki lengur“?